Heldur fleiri fæðingar í ár á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Heldur fleiri fæðingar hafa verið á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri það sem af er ári miðað við í  fyrra. Í vikunni voru skráðar 264 fæðingar á deildinni og örlítið fleiri börn því eitthvað hefur verið um tvíburafæðingar í ár líkt og vanalega.  Á sama tíma í fyrra voru fæðingar 250 talsins.

Hulda Magnadóttir á fæðingardeild FSA segir að líflegt hafi verið á deildinni að undanförnu. Töluvert er um að konur af Norður- og Norðausturlandi komi til Akureyrar að fæða.  „Það gengur bara vel hjá okkur og er gaman, hér er ævinlega mikið af skemmtilegu fólki og stundum allt fullt," segir Hulda.

Hún gerir ráð fyrir að árið allt muni koma vel út hvað fæðingar varðar, en framundan sé annatími því vitað sé af fjölda kvenna sem ætli sér að eiga á næstu tveimur mánuðum, í ágúst og september. „Og svo veit maður aldrei hvað bætist við af utanbæjarfólki, en við sjáum fram á að það verði mikið um að vera og líflegt hjá okkur á næstunni," segir Hulda.

Nýjast