Heldur færri brottfarir erlenda gesta um Leifsstöð

Brottfarir erlendra gesta um Leifsstöð í júní voru 53.500, eitt þúsund færri en í júní á síðasta ári. Fækkunin nemur tveimur prósentum milli ára. Frá áramótum hafa 170.400 erlendir gestir farið frá landinu, 8.500 færri en árinu áður, fækkunin nemur tæpum fimm prósentum milli ára, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu.  

Þróunin á milli einstakra markaðssvæða er nokkuð ólík í júní. Þannig er veruleg fjölgun frá Norður-Ameríku, eða rúm 21% á meðan fækkun er frá öðrum mörkuðum. Þó má sjá fjölgun hjá einstökum löndum, þannig fjölgar Þjóðverjum í júní um 13,3% á milli ára, Frökkum um 7,8% og Norðmönnum um 5,3%. Veruleg fækkun er hins vegar frá Hollandi, eða 38,8% og má m.a. rekja það til fjölda Hollendinga sem kom til landsins í tengslum við landsleik Íslands og Hollands í júní í fyrra í undankeppni HM í knattspyrnu.

Hvað varðar fjölgun frá Bandaríkjunum þá hefur orðið mest aukning á svokölluðum „stop-over" farþegum sem dvelja hér á landi í 2-4 sólarhringa á leið sinni yfir hafið. Einnig hefur sætaframboð aukist til Bandaríkjanna, t.d. með flugi á vegum Iceland Express. Sé litið á árið í heild eru niðurstöður áþekkar, þ.e. fjölgun frá Norður-Ameríku en fækkun víðast annars staðar. Góð fjölgun Breta fyrstu þrjá mánuði ársins skilar þó aukningu þaðan upp á 3,5% frá áramótum.

Íslendingar fara nú utan í auknum mæli. Þannig fóru 13,4% fleiri utan í júnímánuði í ár en í fyrra en frá áramótum hefur brottförum þeirra fjölgað um tæp 6%. Framundan eru tveir stærstu ferðamánuðir ársins, júlí og ágúst. Í fyrra voru nærri 40% brottfara erlendra gesta í Leifsstöð í þessum mánuðum.

Nýjast