Afleiðingar kreppunnar komu fyrst fram um það leyti segir hún, þá tóku fyrstu uppsagnir sem gripið var til í kjölfar efnahagshrunsins gildi og margir því meira heima við en áður. Tilkynningum hélt svo áfram að fjölga allt árið og sumarmánuðirnir sem að jafnaði eru líka í rólegri kantinum í þessum efnum voru óvenju erfiðir. Tilkynningum um ofbeldi inni á heimilum hélt áfram að fjölga. „Vanalega kemur lægð á sumrin, en svo var ekki nú, það var mikið um að tilkynnt væri um ofbeldi á heimilum, þannig að þetta hefur verið erfiðari tími en oft áður," segir Sæunn. Hún bætir við að mikið hafi einnig verið að gera á þessum vettvangi í allt haust og útlit sé því fyrir að desember verði slæmur, líkt og var í fyrra og því ástæða til að kvíða fyrir.
Tilkynningum til Aflsins fjölgaði á milli áranna 2007 og 2008 um 94%, „og við sjáum fyrir okkur að þetta verði ekki minna í ár, málafjöldinn þetta árið verður örugglega ekki minni en var í fyrra," segir Sæunn. Atvinnuleysi og meiri viðvera heima ásamt auknum áhyggjum af fjárhag fjölskyldunnar verður stundum til þess að sögn Sæunnar, að upp úr sýður. Þá hafi neikvæð umræða, m.a. í fjölmiðlum líka áhrif, sífelld umræða um kreppuna fari illa í marga. Ástæða þess að fleiri tilkynningar berast nú segir hún að megi líka rekja til þess að fleiri leiti sér aðstoðar og þá einnig fyrr en áður var. Konur sem verði fyrir ofbeldi á heimilium sínum séu tilbúnari að leita eftir aðstoð og tilkynna um atburðinn en áður. Það sé vissulega jákvætt. Sæunn bendir á að heimilisofbeldi fari illa með börn sem verði vitni að því og að það sé skylda samborgara að tilkynna um verði þeir varir við að slíkt viðgangist.
Fjöldi mála sem berst inn á borð Aflskvenna hefur margfaldast, en á sama tíma hafa þær úr minna fé að spila en öllu jöfnu. Margir sem áður veittu starfseminni styrki hafa dregið þá til baka nú þegar þrengir að, það eigi við um t.d. sveitarfélög og fyrirtæki, en einnig sé nú næsta fátítt að lagt sé inn á reikning þeirra fé frá nafnlausum einstaklingum. „Það var alltaf svolítið um að fólk út í bæ lagði okkur lið með þeim hætti, þetta voru ekki endilega háar upphæðir frá hverjum og einum, en skiptu okkur verulegu máli. Þegar maður hefur úr litlu að spila skiptir hver króna máli," segir Sæunn. Á árinu 2008 voru þannig lagðar inn um 120 þúsund krónur frá ónafngreindum einstaklingum. Alls eru starfandi 5 hópar á vegum Aflsins nú í vetur, fólkið hittist í hópum einu sinni í viku, fjóra tíma í senn og stendur hvert námskeið yfir í allt að 15 vikur. Aflskonur leggja því fram mikla vinnu í þágu málstaðarins, en hún fer að langmestu leyti fram í sjálfboðavinnu. „Við reyndum á tímabili að greiða smávegis laun fyrir þessa vinnu, en eigum ekki lengur peninga fyrir þeim," segir Sæunn.