Vörukaup hækka í áætluninni eða um tæpar 2,9 milljónir króna og verða 138 milljónir. Í vörukaupaliðnum er matarkostnaður skólamötuneytanna færður og koma því tekjur að stórum hluta til upp á móti þessari upphæð. Þjónustukaup verða um 821,3 milljónir króna og hækka um rúmar 86 milljónir, sem kemur að mestu til vegna Naustaskóla. Tekjur lækka á milli ára um 8 milljónir og verða um 192 milljónir króna. Þessi lækkun kemur til vegna lækkaðra framlaga frá ríki vegna Hlíðarskóla og Árholts, en þar er rekin lengd viðvera fyrir fötluð börn 10-16 ára.
Gjaldskrá frístundar er óbreytt frá fyrra ári, þar sem hún hækkaði s.l. haust og gjaldskrá skólamötuneyta var ekki hækkuð um áramót þar sem tekjur standa undir rekstri í flestum tilvikum. Hins vegar var ákveðið að skoða nánar rekstur þriggja skólamötuneyta. Eins og fram hefur komið er það stefna bæjaryfirvalda að verja störf. Það eru því litlar breytingar á starfsmannahaldi. Stöðugildum fjölgaði á milli áranna 2008 til 2009 og er það vegna tilkomu Naustaskóla haustið 2009 og einnig eru stöðugildi í Grímseyjarskóla komin inn eða 2 alls í stjórnun og kennslu. Á móti fækkar stöðugildum á árinu 2010 og kemur þar til breyting á starfsemi Hlíðarskóla sem kom til framkvæmda frá hausti 2009.
Hins vegar verður nokkur tilflutningur á nemendum milli skóla og verður þá einnig tilflutningur á stöðugildum. Þessar breytingar koma fyrst og fremst til vegna Naustaskóla. Hér er þó ekki um mörg stöðugildi að ræða. Miðað við þetta verður boðið upp á sambærilegt þjónustustig í skólunum og var á s.l. ári. Þannig verður svipaður fjöldi nemenda á hvert stöðugildi kennara eða um 9,9 og um 20 nemendur á hvert stöðugildi annarra starfsmanna. Þetta þýðir að þar sem nemendum er skipt upp í deildir verður meðalfjöldinn svipaður og áður, um eða undir 20 nemendur í deild, þó einhver breytileiki sé að sjálfsögðu alltaf til staðar milli árganga og skóla. Þá verður magn og fyrirkomulag sérkennslu með sambærilegum hætti og áður.
Sérfræðiþjónusta við skólana verður með sama sniði og undanfarin ár. Starfandi verða tveir fjöskylduráðgjafar við Hlíðarskóla, námsráðgjafar verða jafnmargir og sérkennsluráðgjafar og sálfræðingar einnig. Þá verður áfram unnið að því að styðja skólana við innleiðslu á viðurkenndum agastjórnunaraðferðum. Samningurinn við Háskólann á Akureyri um þjónustu skólaþróunarsviðs við grunnskólana verðu einnig með sama sniði og fyrri ár. Þetta kemur fram í Skóla-akri vefriti skóladeildar.