Verið er að gera upp síðasta leikár þessa dagana og undirbúningur fyrir það næsta stendur nú sem hæst en vetrardagskráin verður kynnt þegar kemur fram í ágúst. „Síðasta leikár var mjög gott, það var sett áhorfendamet en um 35 þúsund gestir sáu okkar sýningar á liðnum vetri og erum við mjög ánægð með þann árangur," segir María Sigurðardóttir leikhússtjóri. Áætlun er gerð í upphafi hvers leikárs og segir María að í ljós hafi komið að ekki hafi gengið eins vel og hún gerði ráð fyrir. „Staðan er alls ekki slæm, en vissulega hefðum við viljað að hún væri aðeins betri eftir síðasta leikár," segir María. „Við hefðum viljað sá betri útkomu eftir leikárið."
LA sýndi m.a söngleikinn Rocky Horror á liðnum vetri við gífurlegar vinsældir en sýningin var mjög dýr að sögn Maríu. Hann var sýndur í menningarhúsinu Hofi. Áhorfendur skiluðu sér vel, en kostnaður við uppsetninguna var mikill. „Það er alveg ljóst að það er mjög erfitt að reka leikhús um þessar mundir, styrkir lækka ár frá ári en allt sem við þurfum að kaupa að hefur hækkað umtalsvert. Það er því erfitt að fá enda til að ná saman. Bæði atvinnu- og áhugaleikhús hafa orðið fyrir barðinu á þessum niðurskurði og að mínu mati þurfa stjórnvöld að fara að skoða ofan í kjölinn hvernig haga eigi þessum málum í framtíðinni og hvert þau ætla að stefna," segir María.
Leikfélagið hefur að sögn Maríu reynt að forðast að hækka miðaverð, en óhjákvæmilegt var að hækka örlítið í fyrra. Hægt er að gera hagkvæm kaup með áskriftarkortum. Öll miðasala mun næsta vetur fara fram í Samkomuhúsinu og þar verða einnig allar sýningar á vegum LA, en María segir að húsið eigi sinn stað í hugum og hjörtum Akureyringa og gesta þeirra.