„Harmonikan er heillandi hljóðfæri. Það má segja að draumur okkar um að heiðra hljóðfærið rætist og því verður gert hátt undir höfði á Harmonikudeginum sem haldinn verður næsta sunnudag, 4. maí með glæsilegum tónleikum í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri,“ segir Hrund Hlöðversdóttir sem ásamt Agnesi Hörpu Jósavinsdóttur hefur unnið að undirbúningi viðburðarins.
Hrund kveðst oft hafa hugleitt hversu magnað og fjölhæft hljóðfæri harmonikan sé, en við undirbúning tónleika sem hún efndi til í fyrravor, Sögulok þar sem hún lék m.a. á harmoniku fékk hún þá hugmynd að gaman væri að skipuleggja tónleika þar sem gestir gætu heyrt mismunandi tónlistarstíla og fengið að upplifa okkar allra bestu íslensku harmonikuleikara leika listir sínar á hljóðfærin.
„Harmonikan getur komið í stað heillar hljómsveitar, hún getur spilað viðkvæm stef á undurblíðan hátt og líka framkallað mikinn og ærandi hávaða,“ segir Hrund sem lætur fagfólkið um harmonikuleikinn að þessu sinni og er sjálf í hlutverki kynnis auk þess að sjá um verkefnastjórn. Á tónleikunum koma fram nokkrir af fremstu harmonikuleikurum landsins.
Hrund Hlöðversdóttir hefur unnið að undirbúningi Harmonikudagsins í Hofi á Akureyri sem haldinn verður næsta sunnudag
Góður endir á vetrarstarfinu
Fyrir margt löngu ákvað Samband íslenskra harmonikuunnenda að hvert og eitt harmonikufélaga á landinu skyldi halda sérstakan dag að vori þar sem hljóðfærinu væri hampað. Dagurinn er gjarnan haldinn fyrsta laugardag í maí og hefur hin síðari ár gengið undir nafninu Harmonikudagurinn. Hann var hugsaður sem góður endir á vetrarstarfi félaganna. Fyrsti alþjóðlegi harmonikudagurinn var haldinn árið 2009, þegar 180 ár voru frá því fyrsta einkaleyfi harmoniku var gefið út.
Gengu oft langar leiðir með harmonikuna í poka á bakinu
Talið er að harmonikur hafi fyrst komið til Íslands upp úr 1850 með frönskum sjómönnum sem unnu við hvalstöðvar hér á landi. „Hljóðfærið náði fljótt talsverðum vinsældum í dægurmenningu Íslendinga og þess ekki langt að bíða að íslenskir harmonikuleikarar fóru að láta að sér kveða,“ segir Hrund og bætir við að ansi margir sem hún hafi hitt tengi við hljóðfærið og þekki eða hafi þekkt einhvern nákominn sem spilaði á harmoniku. Harmonikan varð algeng á dansleikjum í kringum 1870, eins og heimildir greina frá, og var það m.a. vegna þess að hún var auðveld í meðförum og hentaði vel fyrir ferðalög milli sveita. Hljóðfæraleikarar þurftu oft að ganga langar leiðir eða fara á hestbaki með harmonikuna í poka á bakinu. Mikið var lagt á sig til að halda harmonikuleiknum lifandi, oft fyrir lítil sem engin laun, og er sagt að í sumum tilvikum hafi harmonikuleikarar einungis fengið einn kartöflupoka fyrir spilamennsku mestalla nóttina.
Mikill undirbúningur liggur að baki viðburði sem þessum
,,Það eru líklega fæstir sem átta sig á því hversu mikill undirbúningur liggur að baki einum tónleikum,” segir Hrund en hún og Agnes Harpa hafa nú í hálft ár fundað reglulega og haldið utan um alla þræði skipulagsins. ,,Fyrst er að fá hugmyndina og þá þarf að byrja að sækja um styrki þar sem fæstir listviðburðir standa undir sér fjárhagslega. Ég sótti um í Verðandi listsjóð hjá Menningarfélagi Akureyrar nákvæmlega fyrir ári síðan en nú er einmitt opið fyrir umsóknir fyrir veturinn 2025-2026. Eftir að ég fékk jákvætt svar hafði ég samband við Agnesi Hörpu harmonikuleikara og formann FHUE Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð. Hún var tilbúin til samstarfs og saman sóttum við um styrki í fleiri sjóði og fengum styrk úr Uppbyggingasjóði SSNE. Eftir ákvörðunina um tónleikana tóku við óteljandi hlutir sem við þurftum að huga að og skipuleggja, tímasetningar, semja við allt tónlistarfólkið, sjá um kynningar og markaðsmálin og láta fjárhagsáætlunina ganga upp. En fyrst og síðast er svo gaman að sjá og upplifa litla hugmynd sem smellur í kollinn verða að veruleika. Það verður svo gaman á sunnudaginn í Hofi og við hvetjum alla sem mögulega hafa þess kost að koma og heiðra þetta frábæra hljóðfæri, harmonikuna, með nærveru sinni í Hofi.”
Skapa stemmningu fyrir tónleikana
Tónleikarnir hefjast kl. 16 og eru í Hömrum, minni salnum í Hofi. Frá kl. 14.30 munu harmonikutónar hljóma um ganga hússins og á veitingarstaðnum, Mói bistro, „til að skapa stemmningu og heiðra harmonikuna,“ segir Hrund. Á tónleikunum verða flutt íslensk þjóðlög, dægurlög, kvikmyndatónlist, klassísk verk og nútímaverk. Tónleikunum er skipt upp í fjóra hluta og tekur hver fjórðungur um 20 mínútur. Ásta Soffía Þorgeirsdóttir hefur leikinn með íslenskum tangóum og þar á eftir leikur Tríó Mýr kvikmyndatónlist eftir Ennio Morricone. Eftir hlé tekur Flemming Viðar Valmundsson við og spilar m.a. verk eftir Grieg en lokatóna slær Stórsveit harmonikuleikara Eyjafjarðar undir stjórn Roar Kvam en þá spila 11 harmonikur við undirleik hrynsveitar þekkt lög, erlend og innlend.
Stórsveit harmonikuleikara í Eyjafirði undir stjórn Rovar Kvam kemur fram á tónleikunum
„Þetta er einstakur viðburður og ekki vitað til að tónleikar af þessu tagi hafi verið haldnir á Norðurlandi áður,“ segir Hrund, en nokkrir af hljóðfæraleikurunum koma um langan veg til að taka þátt, frá Danmörku og Noregi. „Það er mikill heiður að ná á einn stað harmonikuleikurum á heimsmælikvarða.“