Þema keppninnar var Framtíðarsýn-Akureyri 2020 en sigurvegari keppninnar hlýtur þann heiður að hringja Íslandsklukkunni á morgun. Fyrsta sætið hlaut Viðar Guðbjörn Jóhannsson, Glerárskóla með söguna „á leið til hins betra". Annað sæti hlaut Sigurlaug Birta Helgadóttir, Brekkuskóla, með söguna „Framtíðarsýn 2020 - Enika" og þriðja sætið hlaut Ari Orrason Brekkuskóla með söguna „Framtíðarsýn 2020 - Klukkumálið". Alls bárust 78 sögur í keppnina.
Dagskráin á morgun, 1. desember, hefst á málstofu kl. 14.30-16.00 í hátíðarsal Háskólans á Akureyri N101 sem ber yfirskriftina Íslandsklukkan, framtíðin og sjálfstæðið. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, flytur erindið Framtíð íslenskra háskóla. Njörður P. Njarðvík prófessor emeritus flytur erindið Mín klukka, klukkan þín, kallar oss heim til sín og Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar flytur erindið Akureyri í framtíðinni. Að lokinni málstofu eða klukkan 16.15 verður safnast saman við Íslandsklukkuna þar sem Stefán B. Sigurðsson rektor flytur ávarp og Viðar Guðbjörn Jóhannsson sigurvegari smásagnakeppninnar hringir Íslandsklukkunni 10 sinnum með aðstoð Jóhönnu Guðrúnar Magnúsdóttur formanns félags stúdenta við HA, stúdentar við HA munu bera logandi kyndla og lífga upp á svæðið. Að því loknu eða kl. 16.30 er öllum boðið í hátíðarsal Háskólans á Akureyri.
Þar verður boðið upp á kakó, kaffi og smákökur. Jafnframt fer fram sýning á smásögunum sem bárust í keppnina. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri mun ávarpa hátíðina og síðan mun hann og Stefán B. Sigurðsson rektor afhenda sigurvegurum smásagnakeppninnar sem lentu í fyrsta, öðru og þriðja sæti bókarverðlaun. Barnakór Akureyrarkirkju mun syngja nokkur lög undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur. Viðar Guðbjörn Jóhannsson sigurvegari smásögukeppninnar mun lesa upp vinningssöguna sína og Björn Þorláksson rithöfundur og bæjarlistamaður mun ræða við gesti og hvetja ungu kynslóðina til dáða. Skemmtileg og notaleg stemming mun einkenna hátíðina og eru allir hvattir til að mæta á hátíðarhöldin, gera sér glaðan dag og hefja jólamánuðinn á huggulegum nótum, segir í fréttatilkynningu.