Rekstur Norðurorku gekk vel á árinu 2017 en ársvelta samstæðunnar var 3,5 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 498 milljónir króna eftir skatta og eigið fé 8,6 milljarðar króna. Þetta kom fram á aðalfundi Norðurorku í síðustu viku.
Á aðalfundinum var ákveðið að greiða hluthöfum 15% arð af hlutafé eða 127 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku og dótturfélagsins Fallorku ehf. auk áhrifa frá hlutdeildarfélögunum Tengir hf. og Norak ehf. en rekstur þeirra allra gekk vel á árinu. Fjárfesting samstæðunnar í endurbótum á kerfum og nýframkvæmdum var 1565 milljónir króna sem var lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir ekki síst þar sem framkvæmd við hreinsistöð fráveitu dróst. Til fjárfestinga árið 2018 eru áætlaðir tæpir 1,8 milljarðar króna en verkefni næstu ára eru stór og fjárfrek, einkum í fráveitu og hitaveitu.
Í tilkynningu segir að á móti hillir undir að stórverkefni Fallorku þ.e. ný virkjun í Glerá verði gangsett á vormánuðum 2018. Framkvæmdir við byggingu hreinsistöðvar fráveitu við Sandgerðisbót eru í farvatninu og áætluð verklok upp úr áramótum 2020 fáist tilboð í verkið. Þá er að fara í framkvæmd borun viðbótarholu á Arnarnesi sem og fyrsti hluti nýrrar Hjalteyrarlagnar þ.e. lögn frá Glerártorgi og norður úr þéttbýlinu á Akureyri. Áætlaður heildarkostnaður næstu ára við vatnsaukningu frá Arnarnesi, þ.e. lagnir og borun er um 2,2 milljarðar. Þá er í framkvæmd verkefnið að virkja neysluvatn úr Vaðlaheiðargöngum sem unnið er í samstarfi við Vaðlaheiðargöng hf.
„Þrátt fyrir að okkar bíði stór og mikil verkefni í framtíðinni er það von okkar að verðskrár fyrirtækisins verði til lengri tíma litið áfram með þeim hagstæðustu þegar horft er til fyrirtækja í sambærilegum rekstri. Sem samfélagi og einstaklingum er okkur hollt að muna að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Mikið fjármagn þarf til að afla og vinna nýjar auðlindir og til uppbyggingar á kerfum til að auka flutningsgetu þeirra. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kallar á hækkanir á verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum,“ segir í tilkynningu.
Í stjórn Norðurorku voru kjörin Edward Hákon Huijbens, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Gunnar Gíslason. Í varastjórn voru kjörin, Eva Hrund Einarsdóttir, Arnar Þór Jóhannesson, Óskar Ingi Sigurðsson, Margrét Kristín Helgadóttir og g Matthías Rögnvaldsson.
Eigendur félagsins eru sex sveitarfélög, Þingeyjarsveit, Grýtubakkahreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Eyjafjarðarsveit, Akureyrarbær og Hörgársveit.