Hæsta kauptilboð í Þingvallstræti 23 er 160 milljónir

Pálmar Harðarson átti hæsta kauptilboð í húseignina Þingvallastræti 23 á Akureyri en tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum í morgun. Tilboð hans hljóðar upp á 160 milljónir króna. Þó nokkur tilboð bárust í eignina, samkvæmt upplýsingum Óskars Ásgeirssonar hjá Ríkiskaupum en ekki fengust frekari upplýsingar hjá honum varðandi tilboðin, hverjir buðu eða hvaða upphæðir.  

Óskar sagði að eigendur húseignarinnar, ríkið og Akureyrarbær, myndu fara yfir tilboðin á næstu dögum. Um er að ræða gamla Iðnskólann á Akureyri, ásamt tilheyrandi leigulóðarréttindum en húsnæðið hefur verið nýtt af Háskólanum á Akureyri og er í góðu ásigkomulagi. Heildarflatamál hússins er talið vera 2.224m2 en stærð lóðar liggur ekki fyrir. Samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu verður hún 3.678m2. Húsið er byggt úr steinsteypu árið 1969 og er tvær álmur, ein aðalálma (austurálma) sem er þrjár hæðir og hálfniðurgrafinn kjallari. Önnur álma (vesturálma) er á einni hæð auk hálfniðurgrafins kjallara. Brunabótamat allrar eignarinnar er kr. 430.950.000,- og fasteignamat er kr. 147.450.000,-.

Nýjast