Guðlaugur: Vorum einfaldlega lélegir

„Það kom að því að við töpuðum en það sem mér finnst verst er að það var á heimavelli fyrir framan fulla höll af áhorfendum,” sagði Guðlaugur Arnarsson varnajaxlinn í liði Akureyrar, eftir ósigurinn gegn Fram í kvöld í Íþróttahöllinni á Akureyri í N1-deild karla í handbolta. Framarar voru því fyrstir til þess að leggja Akureyrarliðið að velli í vetur en lokatölur urðu 34:30 Fram í vil. Sigurinn var verðskuldaður en heimamenn náðu sér aldrei á strik í leiknum.

 

„Við vorum bara einfaldlega lélegir. Við erum að skjóta illa á markmanninn og gera honum auðveldara fyrir vikið að verja. Framarar voru að keyra á okkur og við náðum ekki að lesa leikinn nógu vel. Svo var vörnin léleg allan leikinn og engin markvarsla,” segir Guðlaugur.

 

„Við vorum að fá fín færi en nýttum þau illa. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið eitthvað stress eða hvað. Það getur vel verið að það hafi verið að spila inn í að menn hafi verið hræddir við tapa. Svo hafa leikmenn fengið aukna athygli upp á síðkastið og kannski hafði það eitthvað að segja. Maður veit það ekki. Þetta er hins vegar bara hluti af þessu. Við vissum að við færum ekki taplausir í gegnum veturinn en við munum koma sterkir til baka,” sagði Guðlaugur Arnarsson.

Nýjast