Grýlukerti féll af þakskeggi og braut rúðu í húsinu

Grýlukerti féll af þakskegginu hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar við Þórsstíg í morgun og braut rúðu í húsnæðinu. Glerbrot dreifðust inn á gang framan við kennslustofur. Nemendur voru í frímútum en enginn varð fyrir glerbrotunum þrátt fyrir að kaffikannan sé stutt frá.  

Víða hanga grýlukerti í þakskeggjum húsa og eða að snjóhengjur slúti fram af þökum. Slíkt getur skapað mikla hættu, nú þegar fer að hlýna á ný og er full ástæða til að biðja fólk að vera á varðbergi gagnvart slíku. Sem betur fer hafa ekki borist margar fréttir af óhöppum vegna þessa en fyrir réttum tveimur árum urðu þó skemmdir á steindum glugga í Akureyrarkirkju þegar snjóhengja féll á hann. Þótti  mildi að enginn skyldi vera í kirkjunni þegar þetta gerðist en glerbrotum rigndi yfir bekki og gólf kirkjunnar.

Nýjast