Gríðarleg sala í jólabjór

Sala á jólabjór hefur verið mikil frá því hann kom á markað, en samkvæmt reglum má hefja sölu á jólabjór þriðja fimmtudag í nóvember.  Jólabjór er í sölu í 6 vikur alls, eða fram á þrettánda dag jóla, 6. janúar. „Við getum ekki sagt annað en salan hafi verið mjög góð," segir Agnes Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar á Árskógssandi, fyrirtækið hafi selt 177% meiri jólabjór á fyrstu þremur dögunum sem hann var í sölu í ár miðað við í fyrra.   

„Ég held að það sé meiri stemmning fyrir jólabjór núna, það bíða margir í eftirvæntingu eftir að hann komi á markað.  Jólabjór er öðruvísi en venjulegur bjór, bragðmeiri og greinilega fellur hann Íslendingum vel í geð," segir hún. Agnes gerir ráð fyrir að jólabjórinn, Jóla-Kaldi muni seljast upp fyrir jól, en sú hafi einnig orðið raunin í fyrra.  Ákveðnu magni er tappað á vikulega og bjórinn sendur í Vínbúðirnar reglulega fram að jólum, þannig að Agnes gerir ráð fyrir að hann verði af þeim sökum lengur í sölu og ekki búinn löngu fyrir jól. „Við notum engin rotvarnarefni í okkar bjór og því getum við ekki framleitt mikið magn og geymt á lager."

Agnes segir að vel hafi gengið á árinu og framleiðsla og sala það sem af er sé um 18% meiri en var í fyrra.  „Það erum hæstánægð og þakklát fyrir góðar viðtökur," segir hún og bætir við að hugmyndir séu uppi um að auka við framleiðslugetuna og stækka húsnæði Bruggsmiðjunnar á næsta ári, „en við ætlum að taka lítil skref og fara okkur hægt."

Stefnir í 50% meiri sölu í ár

Unnsteinn Jónsson verksmiðjustjóri hjá Vífilfelli á Akureyri segir að sala á jólabjór frá fyrirtækinu sé mjög góð og um 30% meiri það sem af er sölutímanum en hún var allt tímabilið á síðasta ári.  Miðað við hversu góðar viðtökur jólabjór hefur fengið telur hann allt stefna í að salan þegar upp er staðið verði um 50% meiri en hún var í fyrra.  Hann nefnir að sala í áfengisverslunum hafi í nýliðnum nóvember verið svipuð og var á liðnu ári, en greinlegt að fólk hafi valið jólabjór umfram annað.

Vífillfell bauð upp á nýjung, Jóla-bock sem seldist upp á augabragði og er nú uppseldur.  „Við höfum aldrei séð bjórinn fara svona hratt út, þetta er mjög öflug byrjun, við höfum ekki séð þetta fara svona hratt af stað áður," segir hann. Vanalega hefur salan dreifst yfir sölutímabilið, en farið að hæga verulega á milli jóla- og nýjárs.  Meiri umfjöllun í fjölmiðlum, gagnrýni á jólabjór og einstaka uppákomur í kringum hann segir Unnsteinn að geti skipt máli og skapað meiri stemmningu hjá almenningi.

Almennt segir hann að um 5% samdráttur hafi oðið í sölu á bjór hjá Vínbúðunum á árinu, áfengisgjald hafi hækkað um síðustu áramót og virðisaukaskattur þannig að verðið sé komið upp að ákveðnum mörkum.  „Við höfum áhyggjur af aukinni heimaframleiðslu, hún hefur áhrif á alla framleiðendur," segir Unnsteinn.

Nýjast