Grátlegt tap hjá KA

Þær voru dramatískar lokamínúturnar í leik KA og Stjörnunnar úr Garðabæ þegar liðin mættust á Akureyrarvelli sl. sunnudag. Heimamenn stjórnuðu leiknum og voru mun meira með boltann en það voru Stjörnumenn sem skoruðu eina mark leiksins og það kom á uppbótartíma. Almarr Ormarsson fyrirliði KA segir að jafntefli hefði verið sanngjörn úrslit. “Þeir voru að skapa sér ágætis færi en við vorum meira með boltann og held ég að megi segja að jafntefli hefðu verið sanngjörn úrslit”.

Leikurinn fór rólega af stað og var mikið um hálffæri á báða bóga. Gestirnir fengu besta færi fyrri hálfleiks þegar Zoran Stojanovic skallaði boltann í stöng rétt fyrir hlé. Staðan markalaus í hálfleik. Marktækifærin voru öllu meiri í seinni hálfleik og sóttu liðin til skiptis í upphafi hálfleiksins en ávallt vantaði herslumuninn upp á að klára færin. Eftir ágætis byrjun datt leikurinn niður og fátt gerðist fyrr en á 84. mínútu þegar Arnar Már Guðjónsson átti góða aukaspyrnu inn á teig þar sem Norbert Farkas átti góðan skalla að marki Stjörnumanna en Bjarni Þórður Halldórsson varði vel. Stuttu síðar fékk Almarr Ormarsson ágætis færi en var ekki í nægilega góðu jafnvægi og skaut framhjá markinu. Þegar komið var fram í uppbótartíma skoraði Hjalti Már Hauksson fyrir heimamenn þegar hann fékk boltann einn fyrir opnu marki og lagði boltann í netið. Hjalti var hinsvegar dæmdur rangstæður og Stjörnumenn tóku hraða sókn og Ellert B. Hreinsson tók góðan sprett og skoraði sigurmark leiksins.

Lokatölur á Akureyrarvelli 1-0 sigur Stjörnunnar og grátlegt tap hjá KA staðreynd. Eftir tíu umferðir hefur KA 14 stig í sjötta sæti deildarinnar. Næsti leikur KA- manna er útileikur gegn Víkingi í Ólafsvík og reiknar Almarr með erfiðum leik. “Það er alltaf frekar erfitt að fara þangað, þeir eru með fínan heimavöll og ágætis mannskap en við erum vel stemmdir,” segir Almarr að lokum.

Nýjast