"Það er stígandi í þessu sem vonandi heldur áfram, samverurnar hafa tekist vel og ágætar umræður orðið á eftir erindum frummælenda. Tónninn í þeim er sá að skapa verði nýtt og betra Ísland eftir þessar hremmingar," segir Svavar. Hann segir að hljóðið í fólki hafi ekki breyst mikið á liðnum dögum. "Það er enn ráðvillt, eftir því sem púslið raðast betur saman og mynd fer að komast á það sem gerðist, gerir fólk sér betur grein fyrir hvert það á að beina reiði sinni." Þá segir Svavar að almenningur nýti sér lögmannavaktina sem Akureyrarkirkja býður upp á. "Þar er stígandi og líka ljóst að fleiri hafa þurft aðstoð Hjálparstarfsins en í fyrra," segir hann.
Þá nefnir hann að fermingarbörn hafi gengið í hús í bænum í vikunni og safnað fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. "Enn veit ég ekki hvað kom í baukana en mörgum var tekið mjög vel. Guð gefi að okkur gangi betur að skilja þau sem eru í vanda nú þegar við búum líka við þrengingar, þótt þær séu ef til vill ekki jafn alvarlegar og í öðrum heimshlutum, án þess að lítið sé gert úr vanda þeirra sem tapað hafa peningum, eru í greiðsluvandræðum eða hafa misst vinnuna," segir Svavar.
Næsta samvera verður á mánudagskvöld, 10. nóvember, þá talar Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, um Syndirnar sjö og Hermann Arason syngur.