Góð þátttaka í samverustundum kirkjunnar á mánudagskvöldum

Mánudagar gegn mæðu, er yfirskrift samverustunda sem Akureyrarkirkja hefur efnt til síðastliðna tvo mánudaga og segir sr. Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur að kirkjunnar menn séu ánægðir með þátttökuna.   

"Það er stígandi í þessu sem vonandi heldur áfram, samverurnar hafa tekist vel og ágætar umræður orðið á eftir erindum frummælenda.  Tónninn í þeim er sá að skapa verði nýtt og betra Ísland eftir þessar hremmingar," segir Svavar. Hann segir að hljóðið í fólki hafi ekki breyst mikið á liðnum dögum. "Það er enn ráðvillt, eftir því sem púslið raðast betur saman og mynd fer að komast á það sem gerðist, gerir fólk sér betur grein fyrir hvert það á að beina reiði sinni." Þá segir Svavar að almenningur  nýti sér lögmannavaktina sem Akureyrarkirkja býður upp á.  "Þar er stígandi og líka ljóst að fleiri hafa þurft aðstoð Hjálparstarfsins en í fyrra," segir hann.

Þá nefnir hann að fermingarbörn hafi gengið í hús í bænum í vikunni og safnað fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. "Enn veit ég ekki hvað kom í baukana en mörgum var tekið mjög vel. Guð gefi að okkur gangi betur að skilja þau sem eru í vanda nú þegar við búum líka við þrengingar, þótt þær séu ef til vill ekki jafn alvarlegar og í öðrum heimshlutum, án þess að lítið sé gert úr vanda þeirra sem tapað hafa peningum, eru í greiðsluvandræðum eða hafa misst vinnuna," segir Svavar.

Næsta samvera verður á mánudagskvöld, 10. nóvember, þá talar Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, um Syndirnar sjö og Hermann Arason syngur.

Nýjast