Glæpasagan Snjóblinda kynnt á Siglufirði og Akureyri

Í vikunni kom út glæpasagan Snjóblinda eftir Ragnar Jónasson en sögusvið bókarinnar er Siglufjörður. Viðtökur hafa verið vonum framar og situr bókin nú í öðru sæti metsölulista Eymundssonar yfir innbundin skáldverk. Það er því óhætt að segja að Ragnar hefji jólavertíðina með miklum látum. Sagan hefst á því að ung kona liggur blóðug og hálfnakin í snjónum á Siglufirði, nær dauða en lífi.  

Aldraður rithöfundur deyr á grunsamlegan hátt og Ari Þór Arason, nýútskrifaður lögreglumaður, reynir að komast að því hvað er satt og hvað er logið í samfélagi þar sem engum virðist hægt að treysta. Einangrunin, myrkrið og snjórinn þrengja að honum, óttinn nær tökum á bæjarbúum og gleymdir glæpir fortíðar koma upp á yfirborðið. 


Ragnar Jónasson mun lesa upp úr bókinni og árita í Eymundsson Akureyri laugardaginn 23. október kl. 15 og á Siglufirði föstudaginn 22. október kl. 17 í Allanum, áritun fer síðan fram í Samkaup-Úrval í kjölfar upplestursins, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast