Meðal helstu breytinga eru að gert er ráð fyrir að Glerárgata verði þrengd úr fjórum akreinum í tvær, umtalsverðri
uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis, nýtingu bílastæða í miðbænum verður breytt og síki/vatnasvæði
mun ná frá Torfunefsbryggju inn að bakhlið gamla Apóteksins við Hafnarstræti. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um
útfærslur á endanlegu dýpi á síki/vatnasvæði.
Nýjar áherslur í miðbæ Akureyrar
Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa á síðustu misserum unnið að fjölbreyttum verkefnum til að styrkja miðbæ Akureyrar. Markmiðið er
að miðbærinn hafi sterkt aðdráttarafl fyrir íbúa, ferðamenn og fyrirtæki. Fleira fólk geti búið í og við
miðbæinn og þar verði fjölbreyttari þjónusta og atvinnustarfsemi.
Leiðarljós um áherslur í skipulagi miðbæjar
Hinar nýju áherslur byggja m.a. á íbúaþingi þar sem landsmet var slegið og um 1650 manns komu í íþróttahöllina
á Akureyri til að ræða um miðbæinn og tækifæri þar. Frekari úrvinnsla byggðist á tillögu frá Graeme Massie
Architects (GMA) sem hlutskörpust var í hugmyndasamkeppni um skipulag miðbæjarins sem sjálfseignarstofnunin, „Akureyri í öndvegi" stóð fyrir.
GMA brugðust í sinni tillögu við óskum bæjarbúa um „meira skjól og sól" með því að leggja til að
sjávarsíki næði frá Bótinni að Hafnarstræti. Þannig snúa þeir miðbænum í raun austur-vestur og mynda
skjólsæl sólrík rými meðfram síkinu. Með þessu eru einnig áréttuð einstök einkenni Akureyrar, þar sem
sjórinn og ströndin eru dregin inn í miðbæinn en sjórinn hefur tengst bæjarlífinu í gegnum tíðina. Þannig myndast sterk tengsl
á milli landslags og menningar.
Nú liggur fyrir deiliskipulagstillaga sem byggir á ofangreindum tillögum, sem þverpólitískur stýrihópur bæjarins hefur unnið að
með Graeme Massie Architects sem skipulagshönnuðum, ásamt ráðgjafarfyrirtækinu Alta, umferðarskipulagssérfræðingum frá Alan Baxters
Associates og Línuhönnun.
Helstu breytingar í miðbænum - góðar tengingar og öruggt og fjölbreytt umhverfi
o Áhersla er lögð á að skapa aðlaðandi og eftirsótt rými, sem byggja á menningu Akureyrar, sögu,
náttúrulegu umhverfi, landslagi og strandlengju. Þannig eru áréttuð einstök einkenni í miðbænum.
o Gert er ráð fyrir nýjum 3 - 5 hæða byggingum með yfir 150 nýjum íbúðum og allt að 16.000 fermetrum af
atvinnuhúsnæði auk bílastæðakjallara undir húsum.
o Tengsl miðbæjar við Pollinn og menningarhúsið verða styrkt og síki/vatnasvæði lagt frá Bótinni að
Skipagötu með tjörn þaðan að gamla Apótekinu, þar sem sólrík og skjólsæl rými munu verða beggja vegna. Braunshús
verður flutt og þannig myndast göngutenging að Hafnarstræti og Skátagilinu.
o Götum verður breytt þ.a. bílastæði verða meðfram þeim og göturýmin um leið gerð meira aðlaðandi
með nýju yfirborði og meiri gróðri.
o Áhersla er lögð á góðar göngu og hjólaleiðir og meðal annars yfirbyggð hjólastæði í
miðbænum.
o Glerárgatan verður öruggari og henni breytt í aðlaðandi borgarstræti frá Kaupvangsstræti að gatnamótum
við Strandgötu. Á þessu svæði verður hún þrengd úr fjórum akreinum í tvær, en um leið tryggt að hægt
verði að snúa til baka ef þörf krefur. Með þessu verður Pollurinn og menningarhúsið Hof órjúfanlegur hluti
miðbæjarins.
o Bílastæðum fyrir almenning mun ekki fækka, þeim verður fjölgað meðfram götum og síðan liggja fyrir
tillögur að bílastæðahúsi eða bílastæðakjallara sem munu fullnægja þörfinni.
Uppbygging að hefjast
Ráðgert er að fyrir liggi samþykkt deiliskipulagstillaga á fyrri hluta næsta árs. Þá verður þegar hafist handa um framkvæmdir,
þar sem nú þegar liggja fyrir áform um byggingu hótels og íbúða á svæðinu norðan við
síki/vatnasvæði.
Áætlaðar tekjur bæjarins af gatnagerðargjöldum verða yfir einn milljarður króna og verða þær að hluta til nýttar til að
fjármagna nauðsynlegar lykil framkvæmdir. Með þessum hugmyndum vilja bæjaryfirvöld tryggja að miðbærinn verði til framtíðar
uppspretta hugmynda og tækifæra á sviði menningar, lista og viðskipta, með það fyrir augum að styrkja mannlíf og um leið atvinnulíf
á Akureyrarsvæðinu öllu.