Um er að ræða kröfugerðir vegna almenna kjarasamningsins milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands, vegna kjarasamning SGS við samninganefnd ríkisins og kjarasamning SGS við Launanefnd sveitarfélaga. Allir þessir samningar falla úr gildi þann 30. nóvember nk. Kröfugerðin í heild sinni verður birt næsta mánudag á vef félagsins, eftir að búið verður að skila henni inn til SGS. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir á vef félagsins að á annað þúsund manns hafi lagt hönd á plóg við þessa vinnu. „Þetta er búið að vera langt ferli því vinnan hófst formlega í maí sl. þegar við héldum fund í samninganefnd félagsins, en í henni sitja 50 félagsmenn. Á þeim fundi var samþykkt að gera könnun á meðal félagsmanna og nota sama fyrirkomulag og gert var fyrir samningana 2007. Við erum með mjög öflugt trúnaðarmannakerfi og var þessi könnun gerð á þeirra ábyrgð því þeir sáu um að koma spurningalistum á samstarfsmenn og einnig að koma svörum til félagsins. Könnunin stóð yfir í lok maí og í byrjun júní og fengum við tæplega 1.200 svör," segir Björn.