Gatnagerðargjöld af lóðum á Dalvík felld niður tímabundið

Bæjarráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að fella tímabundið niður gatnagerðargjöld af byggingum einstaklinga og fyrirtækja á lóðum við þegar tilbúnar götur. Breytingin gildir út árið 2012 og miðast þá við að framkvæmdir hefjist innan þessara tímamarka.  

Á fundi atvinnumálanefndar í haust var m.a. rætt um mikilvægi þess að íbúðum fjölgaði í sveitarfélaginu en mikill skortur er á íbúðarhúsnæði. Mikilvægt er því að örva byggingarframkvæmdir með tiltækum ráðum. Þekkt aðgerð til þess er að fella tímabundið niður gatnagerðagjöld, segir m.a. í bókun atvinnumálanefndar. Í samþykkt um gatnagerðargjald í þéttbýli sveitarfélagsins Dalvíkurbyggðar, segir um sérstaka lækkunarheimild eða niðurfellingu gatnagerðargjalda, að hana megi viðhafa við: ,,Sérstakar ástæður, t.d. þétting byggðar, atvinnuuppbygging, lítil ásókn í lóðir eða eftirspurn eftir leiguhúsnæði."

Nýjast