Garpar bikarmeistarar í krullu í fjórða sinn

Bikarmóti Krulludeildar SA lauk í vikunni en þá léku Fálkar og Garpar til úrslita. Sex lið tóku þátt í mótinu og var leikið með útsláttarfyrirkomulagi. Fálkar byrjuðu úrslitaleikinn með látum og þegar hann var hálfnaður virtust þeir vera með leikinn í höndum sér, staðan orðin 7-1.  

En Garpar minnkuðu muninn í 7-6, Fálkar komust í 8-6 en Garpar jöfnuðu 8-8 í lokaumferðinni. Því þurfti að leika aukaumferð og þar skoruðu Garpar tvö stig þrátt fyrir að Fálkar ættu síðasta stein. Garpar eru því bikarmeistarar í krullu 2010. Þetta er í fjórða sinn sem Garpar sigra á þeim sjö árum sem Bikarmótið hefur farið fram. Hallgrímur Valsson, fyrirliði Garpa, er sá eini sem verið hefur í liðinu í öll fjögur skiptin. Leikið er um bikar sem lið Garpa gaf í minningu um fyrrum liðsmann sinn og fyrrum formann Skautafélagsins, Magnús E. Finnsson.

Nýjast