G. Hjálmarsson bauð lægst í framkvæmdir á KA-svæðinu

Fyrirtækið G. Hjálmarsson ehf. átti lægsta tilboð í jarðvinnu vegna gervigrasvallar á KA-svæðinu en alls sendu þrír aðilar inn tilboð í verkið. G. Hjálmarsson bauðst til að vinna verkið fyrir rúmar 38,7 milljónir króna, sem er 76,9% af kostnaðaráætlun.  

Kostnaðaráætlun hönnuða hljóðaði upp á rúmar 50,3 milljónir króna. Finnur ehf. átti næst lægsta tilboð í verkið, rúmar 42,7 milljónir króna, eða 84,9% af kostnaðaráætlun. GV Gröfur ehf. buðu rúmar 52,2 milljónir króna í verkið, eða 103,7% af kostnaðaráætlun. Fyrirtækið sendi einnig inn frávikstilboð upp á rúmar 40,9 milljónir króna. Verkið felur í sér uppgröft, fyllingu og fergingu á svæðinu. Áætlað magn er u.þ.b 35. 000 m3. Uppgreftri og fergingu á gervigrasvelli skal vera lokið eigi síðar en 1. nóvember 2008. Verkinu skal vera að fullu lokið 1. apríl 2009.

Í athugasemdum við opnun tillboða í dag, vildi fulltrúi GV Grafa að fundurinn staðfesti að um samskonar dúk sé verið að nota og kröfur eru gerðar um hjá öllum bjóðendum.

Nýjast