Fyrirtækið Greenstone vill reisa netþjónabú á Akureyri

Fyrirtækið Greenstone ehf. hefur óskað eftir samstarfi við undirbúningsvinnu vegna byggingar netþjónabús á Akureyri. Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs segir að netþjónabú geti verið töluvert misjöfn að stærð, en dæmi séu um að þau geti verið allt að 50 þúsund fermetra byggingar.  

"Líkleg stærð svona húss er hins vegar 12-20 þúsund fermetrar, lóðin þarf þá að vera allt að 4 hektarar og orkuþörf liggur á bilinu 10 - 16 megavött," segir Hermann Jón.  Hann segir að ekki sé um sérlega mannaflsfreka starfsemi að ræða, en rætt sé um að hjá búum af þessu tagi starfi að jafnaði um 30 manns og um sé að ræða góða blöndu starfa sem krefjast mismunandi menntunar. Að sögn Hermanns Jóns lét Fjárfestingastofan (Invest in Iceland) gera útttekt í upphafi árs á nokkrum sveitarfélögum þar sem forsendur fyrir uppbyggingu netþjónabúa innan marka þeirra voru metnar. Akureyrarbær var eitt þessara sveitarfélaga og kom mjög vel út úr úttektinni.

"Við vorum við m.a. spurð út í það hvort tiltækar væru lóðir undir starfsemi af þessu tagi og bentum þá á iðnaðarlóðina við Rangárvelli sem einn kost. Auk þess var farið yfir möguleika til orkuafhendingar, ljósleiðaratengingar og fleira," segir hann en fyrirtækið Greenstone hafði samband við bæinn og óskaði eftir samvinnu um að koma þessari starfsemi á fót hér á Akureyri. "Erindið er sannarlega áhugavert og við erum nú að íhuga næstu skref," segir Hermann Jón.

Nýjast