Eftir að síðasti þáttur hafði birst hér í Vikudegi hafði samband við mig Gunnar Sólnes og sagði að ég hefði gleymt að minnast á A 41 en það númer var í eigu föður hans og síðar fjölskyldu. Þetta reyndist rétt því A 41 vantaði í númeraröðina hjá mér. Um áramótin 1944-45 var A 41 Chevrolet 1928 vörubíll og eigandi hans var Hallgrímur Kristinsson. Við sjáum það á þessum númerum að einstaka númer fylgir fjölskyldunum lengi en greinilegt er þó að á þessum tíma fyrir tæpum 70 árum var ekki eins mikill áhugi fyrir lágu númerunum eins og varð síðar. Í síðasta þætti fórum við upp að A 60 og nú skulum við halda áfram.
A 61 Enginn bíll skráður á það númer
A 62 Ford vörubíll 1930 Eig. Vilhjálmur Jónsson
A 63 Chevrolet vörubíll 1929 - Stefán Snæbjörnsson
A 64 Ford vörubíll 1930 - Jón G. Guðnason
A 65 Chrysler fólksbíll 1929 - Gísli Árnason
A 66 Chevrolet fólksbíll 1929 - Hannes Halldórsson
A 67 Chevrolet vörubíll 1941 - Guðmundur Snorrason
A 68 Enginn bíll skráður á það númer
A 69 Chevrolet vörubíll 1934 - Jón Sigurgeirsson Hólum
A 70 Pontiac fólksbíll 1938 - Baldvin Jóhannsson
A 71 International vörubíll 1942 - Lárus Hinriksson
A 72 Chevrolet fólksbíll 1930 - Jón Einarsson
A 73 GMC vörubíll 1940 - Kristinn Jónsson Dalvík
A 74 Enginn bíll skráður á það númer
A 75 Enginn bíll skráður á það númer
A 76 GMC vörubíll 1940 - Ólafsfjarðarkaupstaður
A 77 Chevrolet vörubíll 1928 - Sigurvin Sigurhjartarson
A 78 Studebaker vörubíll 1941 - Hraðfrystihús Ólafsfjarðar
A 79 Ford vörubíll 1937 - Olíuverslun Íslands
A 80 Enginn bíll skráður á það númer
A 81 GMC vörubíll 1940 - Ólafsfjarðarkaupstaður
A 82 Studebaker vörubíll 1934 - Helgi Sveinsson Ólafsfirði
A 83 Pontiac fólksbíll 1930 - Sigurður Guðmundsson
A 84 Chevrolet vörubíll 1929 - Jóhannes Valdemarsson
A 85 Ford fólksbíll 1936 - Baldvin Kristinsson
A 86 Enginn bíll skráður á það númer
A 87 Chevrolet vörubíll 1939 - Hreiðar Eiríksson
A 88 Studebaker vörubíll 1929 - Finnlaugur Snorrason Bægisá
A 89 Ford fólksbíll 1941 - Kristján Kristjánsson
A 90 Dodge fólksbíll 1940 - Svavar Guðmundsson
Það er greinilegt að vörubílar voru vinsælli en fólksbílar á þessum árum. Af þessum þrjátíu bílum sem hér er getið um eru 17 vörubílar en aðeins 8 fólksbílar. Fimm númer eru óskráð. Af þeim númerum sem hér eru skráð virðist mér bara eitt númer hafa fylgt fjölskyldunni til þessa dags. Það er númerið A 67 sem Guðmundur heitinn Snorrason átti. Það er nú á Ford Escort bíl sem afkomendur hans eiga í dag. Ég hef oft látið fylgja með sögu af eigin bílareynslu en ég hef átt 361 bíl. Af þessum bílum eru mjög fáir af Mazda gerð. Það var vegna þess að í vinnunni í gamla daga vann ég með tveimur ágætismönnum sem voru mágar. Þeir áttu báðir Mözdu bíla. Þeir gátu eytt löngum tíma á hverjum degi að standa við norðurgluggann á lögreglustöðinni og dásamað bílana sína. Ekkert var betra en þessir Mazda bílar. Mér leiddist þetta hól um bílana og sniðgekk því svona bíla í mínum viðskiptum. Það fór þó svo að ég keypti Mözdu af öðrum þessara vina minna og átti hann að sjálfsögðu að vera hinn besti bíll. Hann var hins vegar einn af fáum bílum sem ég hef átt sem stoppaði hér í miðjum bæ og vildi ekki í gang. Ég þurfti þá að láta draga hann á verkstæði. Þá skal ég nú gera eina játningu. Vorið 1964 þegar vinum mínum var það ljóst að ég hafði ráðið mig í lögregluna vorum við allir sammála um það að nú þyrfti ég að ljúka af öllum þeim prakkarastrikum sem ég tæki þátt í því ekki gekk að stunda slíka iðju eftir að maður væri orðinn lögreglumaður. Það hafði lengi freistað okkar að aka niður kirkjutröppurnar. Eitt fallegt vorkvöld í mars ókum við því þremur Rússajeppum niður tröppurnar. Við skemmdum að sjálfsögðu ekkert því jepparnair voru á stórum dekkjum. Áður en við gerðum þetta tryggðum við það að lögreglubíllinn A 400 væri annarstaðar þegar þetta fór fram en hvernig við gerðum það verður ekki sagt frá. Ég birti hér einstaka mynd sem fáir hafa séð og farartækið á myndinni lifði raunar bara í einn dag.
Þarna er beltabíll sem var kallaður Skrímslið og undir stýri situr Nils Gíslason. Þennan beltabíl byggðu þeir bræður Níls og Jóhann Gíslasynir frá Árnesi í Glerárhverfi. Þetta átti að vera farartæki sem kæmist allt. Einn laugardag síðsumars sennilega árið 1963 að mig minnir var tækið prufukeyrt og ekið á því utan úr Árnesi og upp á Súlumýrar. Ég man að mér þótti furðulegt að þeir störtuðu bílnum með vasahníf (fiskihníf með tréskafti). Þeir héldu um tréskaftið og leiddu blaðið á milli tveggja póla og þá startaði gripurinn. Ekki gátum við verið fram á kvöld að aka bílum því þeir bræður þurftu að flýta sér heim því þeir höfðu tekið vélina úr bíl sem faðir þeirra átti og fengið hana lánaða í Skrímslið en faðir þeirra Gísli hafði ekki verið heima þegar þeir fóru og var væntanlegur heim þá um kvöldið. Þá skyldi vélin vera komin aftur í heimilsibílinn. Mig minnir að ekki hefðu verið farnar fleiri ferðir á þessum bíl.
Ljósmynd ÓÁ.
Ólafur Ásgeirsson, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri.