Nóttin gekk vel fyrir sig á Akureyri og ekki komu upp nein stórvægileg vandamál að sögn varðstjóra lögreglunnar. Talsverður fjöldi
var í miðbænum í nótt og ölvun svipuð og hefur verið sl. tvær nætur. Tveir voru teknir fyrir ölvunarakstur milli klukkan
hálf sex og sjö í morgun og því hafa alls fimm verið teknir við ölvun við akstur það sem af er helgarinnar í bænum. Afar
fá fíkniefnamál hafa hins vegar komið upp um helgina og að sögn lögreglu eru þau heldur færri en verið hafa undanfarin
ár.
Segist lögreglan vera þokkalega sátt með helgina í heildina, vel hafi tekist til en þúsundir manna voru samankomin á Akureyri á
hátíðinni Ein með öllu og hjartað á réttum stað. Hátíðin náði hámarki í gær með
Sparitónleikum á túninu fyrir framan Leikhúsið og var svo boðið upp á veglega flugeldasýningu.