Framsýn hefur sérstakar áhyggjur af stöðu þessa fólks á þessum miklu óvissutímum. Félagið telur mikilvægt að allir hlutaðeigandi aðilar komi að því að endurreisa íslenskt efnahagslíf sem byggi á jöfnuði og félagshyggju í stað þeirrar miklu misskiptingar sem verið hefur ríkjandi undanfarin ár. Misskiptingu sem nú hefur kallað yfir okkur gjaldþrot heimila, fyrirtækja og bankastofnanna.
Ljóst er að styrkja þarf stoðir atvinnulífsins til að forða stórauknu atvinnuleysi á næstu mánuðum og árum. Í því sambandi er mikilvægt að tekið verði á skuldastöðu fyrirtækja og samþykkt verði þegar í stað að auka við fiskveiðikvótann til að skapa aukna atvinnu og þar með gjaldeyri fyrir þjóð í vanda. Þá þarf að hraða framkvæmdum við uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík eins og kostur er þar sem slík aðgerð myndi hjálpa verulega til þess að rétta þjóðarskútuna við á ný.
Framsýn telur eðlilegt að þeim mönnum sem bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslensku efnahagslífi og hampað hefur verið undanfarin ár af ákveðnum öflum í þjóðfélaginu verði gert að standa fyrir gjörðum sínum. Þeir hafa í gegnum tíðina varið ofurlaun og svimandi háa starfslokasamninga með þeim rökum að þeir bæru svo mikla ábyrgð. Undir þessum áróðri hefur verkafólk með um 100.000 krónur á mánuði orðið að sitja. Nú er hins vegar komið að skuldadögum þar sem eðlilegt hlýtur að teljast að þessir sömu menn axli ábyrgðina í samræmi við launakjör.