Framleiðslu- og Íslandsmet slegin daglega til áramóta

Olga Gísladóttir vinnslustjóri í Silfurstjörnunni / myndir Axel Þórhallsson/samherji.is
Olga Gísladóttir vinnslustjóri í Silfurstjörnunni / myndir Axel Þórhallsson/samherji.is

Liðlega tvö þúsund tonn af laxi hafa verið unnin á þessu ári í Silfurstjörnunni, landeldisstöð Samherja fiskeldis ehf. í Öxarfirði.

Árið 2023 voru unnin þar tæplega 1800 tonn, sem var hið mesta hér á landi af öllum landeldisstöðvum. Þetta þýðir í raun að nýtt Íslandsmet verður slegið á degi hverjum til áramóta í Öxarfirði.

Allar aðstæður til landeldis og framleiðslu á hágæðaafurðum eru ákjósanlegar í Öxarfirði en Silfurstjarnan nýtir græna orku, jarðvarma og kristaltært borholuvatn til framleiðslunnar. Fiskeldi sem fer fram í kerjum eins og hjá Silfurstjörnunni gefur kost á góðri stjórn á öllum stigum framleiðslunnar.

Starfsfólk Samherja fiskeldis býr yfir mikilli reynslu og faglegri sérhæfingu varðandi alla þætti fiskeldis, enda hefur Samherji komið að landeldi á laxi í yfir tuttugu ár.

Silfurstjarnan hefur gengist undir miklar endurbætur á undanförnum árum. Í síðasta mánuði var því fagnað að framkvæmdum er svo að segja lokið og er framleiðslugeta stöðvarinnar um 3.000 tonn á ári en var áður um 1.800 tonn.

97,3 prósent í hæsta gæðaflokk

Byggð voru ný eldisker sem eru tvöfalt stærri að umfangi en kerin sem fyrir voru. Þá hefur sjótaka verið aukin til muna, sett upp ný hreinsitæki, auk þess sem stoðkerfi og margvíslegur tækjabúnaður hefur verið endurnýjaður. Nýtt seiðahús var tekið í notkun í fyrra og á þessu ári hófst starfsemi í nýju vinnsluhúsi sem er tæknilega vel búið á allan hátt.

Elvar Steinn Traustason rekstrarstjóri Silfurstjörnunnar.

 

Lax frá Silfurstjörnunni er eftirsótt hágæðavara á kröfuhörðum mörkuðum, enda hafa 97,3 prósent framleiðslu þessa árs farið í hæsta gæðaflokk. Meðal þyngd laxins er 5,26 kíló.

Árið 2023 hófst sala á ferskum landlaxi og landbleikju frá Samherja fiskeldi á innlendum neytendamarkaði undir eigin nafni og skemmst frá því að segja að viðtökur hafa verið afar jákvæðar.

Endurbætur tókust vel

„Það er alltaf gaman þegar met eru slegin, ég tala nú ekki um að gera slíkt allar vikur fram að áramótum. Starfsmenn Silfurstjörnunnar eru í dag um 40 sem þýðir að þetta er stærsti vinnustaðurinn á svæðinu fyrir utan sjálft sveitarfélagið. Endurbæturnar tókust afskaplega vel og kaupendur lofa gæði framleiðslunnar, þannig að ég get ekki annað en verið ánægður og bjartsýnn á framtíðina,“ segir Elvar Steinn Traustason rekstrarstjóri Silfurstjörnunnar.

Tæknivædd vinnsla léttir störfin

Olga Gísladóttir vinnslustjóri segir að starfsfólkið hafi þegar náð góðum tökum á nýjum og endurbættum búnaði.

Vinnsla Silfurstjörnunnar er vel tækjum búin

 

„Hérna starfar samhentur hópur sem einsetur sér að framleiða hágæða vöru fyrir kröfuharða viðskiptvini. Nýja vinnslan er vel búin og gerir okkur kleift að framleiða allt að 100 tonn á viku af afurð í hæsta gæðaflokki.

Tæknivæddur búnaður léttir störfin, svo sem róbótar, þannig að breytingin er umtalsverð. Það er gaman að sjá flutningabíla fara reglulega héðan full lestaða með gæðaafurðir, við getum sannarlega sagt að Öxarfjörðurinn sé öflugt matvælahérað. Og það var ekki amalegt að fagna því með veglegri tertu að 2.000 tonna múrinn hafi verið rofinn,“ segir Olga Gísladóttir.

 

Olga Gísladóttir sker kökuna góðu

 

Silfurstjarnan í Öxarfirði

 

 Samherji.is sagði fyrst frá 

Nýjast