Framkvæmdir við Vaðlaheiðar- göng af stað um mitt næsta ár

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja í gang vegaframkvæmdir fyrir um 40 milljarða króna. Á næsta ári mun ríkissjóður afla heimilda í fjárlögum og bjóða út skuldabréfaflokk og lána til þeirra félaga sem munu koma að framkvæmdunum. Viðræðum við lífeyrissjóðina var slitið í gær. Stefnt er að því að framkvæmdir muni hefjast á næstu vikum eða mánuðum. Á meðal framkvæmda eru Vaðlaheiðargöng og segir Kristján Möller fyrrverandi samgönguráðherra að gert sé ráð fyri því að Greið leið haldi utan um þá framkvæmd.  

Öll gögn vegna Vaðlaheiðarganga eru til staðar og sagði Kristján að hægt væri að  ráðast í forval strax á nýju ári, bjóða svo verkið út og hefja framkvæmdir um mitt næsta ár. "Það væri nú aldeilis fínn liður á hátíðarhöldunum á 17. júní á næsta ári að sprengja fyrstu sprengjuna," sagði Kristján. Framundan er að stofna hlutfélag um framkvæmdina með aðkomu Vegagerðarinnar og Greiðrar leiðar ehf. Aðrar framkvæmdir sem hér um ræðir eru á Suðurlandsvegi að Selfossi, Vesturlandsvegi að Hvalfjarðargöngum og Reykjanesbraut suður fyrir Straum.

Nýjast