Þetta kemur fram í ályktun Félags framhaldsskólakennara um fjárlagafrumvarp 2010 og niðurskurð á fjárveitingum til framhaldsskóla. "Í öðru lagi er gerð tillaga um að skólarnir fái aðeins 60% af reiknuðu framlagi samkvæmt reiknilíkani framhaldsskóla vegna fjölgunar í skólunum um 350 ársnemendur í forgangshópum. Frumvarpið skilgreinir nemendur á fræðsluskyldualdrinum 16 - 18 ára og fatlaða nemendur sem forgangshópa í námi framhaldsskóla. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir innbyrðis tilfærslum á fjárframlögum milli skólanna sem nema samtals 620 m.kr. Ástæður þessara millifærslna eru breytingar á samsetningu náms í einstökum skólum og breytingar á reglum við útreikninga vegna sérkennsluáfanga og húsaleigu skólanna. Þessar fyrirhuguðu tilfærslur koma m.a. sérstaklega illa við skóla sem búa við þröngan húsakost. Þessi mikli niðurskurður á fjárveitingum til framhaldsskóla er sérstakt áhyggjuefni þar sem þeim hefur í mörg ár verið skorinn mjög þröngur stakkur í rekstri. Því verður að telja hættu á að skólarnir geti ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum við nemendur, hvorki í forgangshópum né almennt, ef fyrirfram er ákveðið að greiða ekki nauðsynlegan viðurkenndan kostnað af námsvist þeirra. Stjórn Félags framhaldsskólakennara leggur fast að ráðherrum, fjárlaganefnd, menntamálanefnd og öllum þingmönnum að sjá til þess að framhaldsskólar fái nauðsynlegt fjármagn til að sinna lögbundnum skyldum við nemendur í þeim erfiðu aðstæðum sem eru framundan. Niðurskurður má ekki bitna á þeim sem síst mega við því, efnahagslega og félagslega, segir ennfremur í ályktuninni.