Eftir níu sigurleiki í röð í N1-deild karla í handbolta kom að því að Akureyri tapaði leik en það voru Framarar sem stöðvuðu sigurgöngu norðanmanna með 34:30 sigri í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag. Það gekk allt upp hjá Fram í leiknum. Sóknin var frábær, sem og vörn og markvarsla og sigurinn fyllilega verðskuldaður.
Að sama skapi gekk lítið hjá heimamönnum sem voru arfa slakir í sókn og vörn. Sveinbjörn Pétursson náði sér ekki á strik í marki heimamanna í kjölfarið og munaði það um minna fyrir norðanmenn. Akureyringar halda toppsætinu engu síður með 18 stig, en Framarar eru nú aðeins tveimur stigum á eftir þeim í öðru sæti.
Bæði liðin gerðu mikið af klaufalegum mistökum í byrjun leiks, sem var jafn framan af. Framarar fóru að síga framúr um miðjan hálfleikinn og var það ekki síst fyrir magnaða frammistöðu Magnúsar Gunnars Erlendssonar í marki gestanna, en hann varði alls 15 skot í fyrri hálfleik. Fram náði þriggja marka forystu, 9:6, um miðjan hálfleikinn og varð munurinn mestur fjögur mörk.
Framarar urðu svo fyrir miklu áfalli þegar Magnús Gunnar var rekinn af velli fjórum sekúndum fyrir lok hálfleiksins, er hann bókstaflega hljóp Bjarna Fritzson niður sem var kominn upp í hraðarupphlaup. Sorgleg niðurstaða fyrir Framara og sérstaklega Magnús sjálfan sem hafði verið frábær í markinu, en réttur dómur engu að síður. Oddur Gretarsson skoraði úr vítakasti á síðasta skoti fyrri hálfleiks og staðan 15:13 í leikhlé fyrir Fram.
Eflaust héldu margir að brottvísun Magnúsar yrði til þess að kveikja enn frekar í Akureyrarliðinu sem höfðu náð ágætum endaspretti undir lok fyrri hálfleiks. Svo var hins vegar ekki. Ástgeir Sigmarsson tók við keflinu af Magnúsi í marki Fram í seinni hálfleik og norðanmenn voru fljótir að skjóta hann í gang en hann varði alls 8 skot. Fram náði í kjölfarið að auka við forskotið sem varð mest sjö mörk og reyndist það of mikill munur fyrir Akureyri að vinna upp og fjögurra marka sigur Fram, 34:30, staðreynd.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8 (3 úr víti), Oddur Gretarsson 6 (1 úr víti), Heimir Örn Árnason 5, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Geir Guðmundsson 2, Bergvin Gíslason 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 8, Stefán Guðnason 9.
Mörk Fram:Róbert Aron Hostert 8, Haraldur Þorvarðarson 6, Einar Rafn Eiðsson 5 (2 úr vítum), Magnús Stefánsson 5, Jóhann Gunnar Einarsson 4, Matthías Daðason 3, Halldór Jóhann Sigfússon 3.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 15, Ástgeir Sigmarsson 8.