Fræði, fæði og dansæði á Akureyrarvöku

Háskólinn á Akureyri og Friðrik V standa saman að viðburði á Akureyrarvöku þann 30. ágúst sem gengur undir nafninu Fræði, fæði og dansæði. Nafnið vísar í það að boðið verður upp á fyrirlestra frá fræðimönnum sem starfa við Háskólann og einnig frá matarelskandi aðilum á vegum veitingahússins.  

Í lokin mun HA bandið leika fyrir dansi og aldrei að vita nema það grípi um sig dansæði meðal gesta. Viðburðurinn fer fram á veitingarhúsinu Friðrik V að Kaupvangsstræti 6 og hefst hún klukkan 14. Alls verða fluttir fimm stuttir fyrirlestrar (hver um 15 mínútur) og síðan verður gefin tími fyrir snarpa umræðu. Gott andrými verður milli fyrirlestrana svo fólk getur gengið inn og út á milli, spjallað yfir kaffibolla og gætt sér á ýmsu góðgæti sem Friðrik V mun hafa á boðstólum. HA-bandið mun síðan byrja að spila kl. 17:30 og halda uppi stuðinu til 19:00. Akureyringar allir eru hvattir til að líta við á Friðriki V á Akureyrarvöku!

Fyrirlesarar eru:

Kjartan Ólafsson, félagsfræðingur: Vor Akureyri - Hvað hafði ungt fólk að segja árið 1968?

Friðrik Valur Karlsson, kokkur: Matur í Kaupvangsstræti 6 frá árinu 1907 til dagsins í dag

Hjördís Sigursteinsdóttir, rekstrar og stjórnunarfræðingur: Að konur njóti sín! Líf og störf kvenna í dreifbýli

Davíð Kristinsson, heilsuþjálfari, næringar- og lífstílsþerapisti: Elskan, hvað er í matinn?

Ragnar (skjálfti) Stefánsson, jarðskjálftafræðingur: Verður hægt að vara við næsta stórskjálfta?

Nýjast