Ólafur Torfason stjórnarformaður og aðaleigandi Fosshótela, segir að hér sé um mjög spennandi kost að ræða. Hugmyndin sé að byggja 62 herbergja hótel með nýtingu byggingaréttar austan gamla hússins. Hann segir að skilyrði fyrir rektstrarhæfri einingu sé að komast í 60-70 herbergi, en það náist aðeins með tveimur hæðum til viðbótar á byggingarrétti austan gamla hússins. Þetta er tveimur hæðum hærra en núverandi skipulag gerir ráð fyrir. Viðbyggingin með kjallara yrði þá alls 7 hæðir og að minnsta kosti sú efsta inndregin. Ólafur segir að þessar hugmyndir hafi verið kynntar bæjaryfirvöldum en breyta þurfi deiliskipulagi, eigi þær að ganga eftir. Hann segir að skipulagsmál taki alltaf einhvern tíma en ef þessar hugmyndir gangi upp verði hægt að hefja framkvæmdir um leið og tilskilin leyfi fást og taka hótelið í notkun á vormánuðum 2012. Heildarkostnaður við að gera upp gamla húsið og reisa viðbygginguna er áætlaður allt að 700 milljónir króna.
"Þarna myndu skapast 30-40 störf á framkvæmdatímanum og við hótelið myndu svo starfa 20-30 manns í framtíðinni," segir Ólafur. Fosshótel reka alls 11 hótel, í Reykjavík og víða um land, m.a. á Húsavík, Laugum og Dalvík. Ólafur rekur jafnframt þrjú önnur hótel í Reykjavík, Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík og Hótel Reykjavík Centrum.
"Við erum með mjög öfluga markaðssetningu á okkar vegum, sem myndi nýtast mjög vel á Akureyri líka. Við höfum verið með það á stefnuskránni að vera á fjórum lylkilstöðum á landinu og þar á meðal er Akureyri. Ég hef verið að leita að svæði í bænum til að koma upp gistiaðstöðu og m.a. skoðað nýja miðbæinn og Sjallareitinn. En svo kom Hafnarstrætið upp fyrir nokkrum mánuðum og menn hafa verið að reyna þróa þetta. Það er spennandi að taka þátt í gera upp svona gamalt hús, við gerðum það í Aðalstræti í Reykjavík að hluta til og það tókst mjög vel," segir Ólafur.
Hann segir að alls ekki standi til að skemma götumyndina í Hafnarstræti, gamla húsið yrði byggt upp í upprunalegri mynd, viðbyggingin kæmi á bak við og myndi hafa lítil áhrif á útlit miðbæjarins. "Það er óprýði af þessu húsi í Hafnarstræti eins það er og því orðið brýnt að ráðast í að gera það upp."