Forsendur sem lagt var upp með fyrir fjárhagsáæltun eru brostnar

Vinna við fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2009  er í fullum  gangi.  Þær forsendur sem lagt var upp með á liðnu vori eru brostnar og öll áætlunargerð fyrir vikið mun erfiðari og óvissa ríkjandi.  Bæjarstjórinn á Akureyri segir blasa við að erfitt verði að koma áætlun heim og saman við þær aðstæður sem uppi eru nú.  

"Við höfum haft þann háttinn á að fjárhagsrömmum er úthlutað til deilda í júní og þær vinna síðan sína áætlun innan hvers ramma og þeim forsendum sem þar eru settar. Hagssýslustjóri er síðan þessa dagana að fá áætlanir inn til baka og þá tekur við yfirferð hér innanhúss og hjá meirihlutafulltrúum sem að sauma heildarpakkann saman," segir Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri. Í forsendum sem við gáfum okkur í vor þegar við lögðum af stað  þá var gert ráð fyrir  8- 10 % hækkun á gjöldum sem var varla verðlagshækkun. Við sjáum nú að allar forsendur fyrir áætluninni hafa breyst og í ljósi efnahagsástandsins verður öll áætlunargerð mun erfiðari og óviss," segir Sigrún Björk.  "Ég skil vel og veit  að heimilin í landinu þola ekki miklar hækkanir á þjónustugjöldum.  Ég hef heyrt af óánægju verkalýðshreyfingarinnar vegna þessara forsenda sem við lögðum til grundvallar áætlunni. En á móti þá hafa öll aðföng sveitarfélagsins hækkað mikið og síðan  eru flestir kjarasamningar lausir í nóvember þannig að  það blasir við okkur mjög erfið staða að koma þessu heim og saman."

Lausnin hlýtur að mati bæjarstjóra að felast í einhvers konar samfélagssátt  "um það hvernig við ætlum að stilla upp málum og vinna okkur út úr þessari lægð sem Ísland er í. Þar þurfa allir að leggjast á eitt og við hjá sveitarfélögunum munum ekki skorast undir því verkefni, " segir Sigrún Björk.

Nýjast