"Kaup á svína- og kjúklingakjöt i er innan við 1,3% af heildarútgjöldum heimilanna eða rúmar 5.000 kr. á mánuði
fyrir meðalheimilið. Hins vegar má skilja orð formanns Samfylkingarinnar þannig að mun meiri hagsmunir séu í húfi. Nú veit ég ekki
hversu mikilli lækkun það myndi skila í vasa neytenda að lækka tolla á svína- og kjúklingakjöti en það er þó
augljóst að mínu mati að sá ávinningur er stórlega ofmetinn," segir Ingvi Stefánsson svínabóndi á Teigi í
Eyjafjarðarsveit og formaður Svínaræktarfélags Íslands um ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um liðna helgi lækkun
tolla á hvítu kjöti.
Ingvi minnir á að aðeins er rúmt ár frá því tollar á innflutt kjöt voru lækkaðir um 40% og að fyrir liggi að
útflutningsskylda á lambakjöti verði felld niður haustið 2009. "Því hvarflaði ekki að manni að það væri til
umræðu að ganga enn lengra í þessum efnum á næstu misserum. Það er auðvitað vita vonlaust að gera nokkrar áætlanir í
þessum rekstri á meðan þetta óvissuástand ríkir, enda tekur það vel á þriðja ár að koma aukinni framleiðslu
á markað frá því að ákvörðun um stækkanir eru teknar. Ég get þó verið sammála ráðherra með
að matvælaverð hér á landi er of hátt, en það má reyndar segja um marga aðra útgjaldaliði heimilanna sem vega mun þyngra en
kaup á svína- og kjúklingakjöti Það hefur ekki staðið á okkur að leggja til við yfirvöld leiðir til að ná enn
frekari hagræðingu í okkar rekstri sem myndi skila sér í lægra verði á okkar afurðum, það hefur hins vegar skort á
viðbrögð frá stjórnvöldum við þessum tillögum."
Ingvi segir að ef tollar yrðu felldir niður stæðu svína- og kjúklingabændur eftir berskjaldaðir og hið sama gilti um
afurðastöðvarnar. Sem dæmi nefnir hann Eyjafjarðarsvæðið þar sem rekin eru öflug matvælavinnslufyrirtæki sem að hluta byggja
afkoma sína á slátrun og vinnslu á svínakjöti. Óheftur innflutinngur á svínakjöti myndi hafa alvarleg áhrif
á rekstur þessara fyrirtækja. Um 370 manns vinni við slátrun og vinnslu á Norðausturlandi og megi gera ráð fyrir að yfir 100
þessara starfa tengist úrvinnslu á svínakjöti og á þá eftir að taka tillit til afleiddra starfa. Núverandi vaxtastig mun
hægja verulega á hjólum atvinnulífsins og leiða af sér aukið atvinnuleysi á komandi misserum. "Því verðum við að passa upp
á þau störf sem við höfum nú á landsbyggðinni. Þá er svo margt annað sem þarf að hafa í huga í þessari
umræðu, ég get nefnt sem dæmi að við svínabændur kaupum mjög mikið af fóðri og ef okkar framleiðslu nyti ekki við er langt
frá því að vera sjálfgefið að fóðurblöndun yrði haldið áfram á Akureyri. Ef fóðurblöndun yrði
hætt hér þyrftu kúabændur að kaupa fóður frá Reykjavík, sem myndi hækka þeirra fóðurkostnað mikið. "