Foreldrar greiða ekki hærra leikskólagjald í Hólmasól

Elín Margrét Hallgrímsdóttir formaður skólanefndar Akureyrarbæjar hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna bókunar Hlyns Hallssonar fulltrúa VG í skólanefnd, þar sem hann segir að nú stefni í að leikskólinn Hólmasól verði bænum enn kostnaðarsamari en fyrirséð var og hvert pláss dýrara fyrir bæinn og foreldra en á öðrum leikskólum. Tilkynningin sem Elín Margrét skrifar undir er svohljóðandi: Í bókun sem Hlynur Hallsson lagði fram í skólanefnd Akureyrarbæjar þann 5. maí s.l. er því haldið fram að hvert pláss í leikskólanum Hólmasól sé dýrara fyrir Akureyrarbæ en í öðrum leikskólum sem reknir eru af bænum. Einnig er því haldið fram að foreldrar greiði hærra gjald í Hólmasól en í öðrum leikskólum bæjarins. Samkvæmt samningi sem gerður var við Hjallastefnuna ehf. þann 19. desember 2005 um rekstur leikskólans Hólmasólar, gildir gjaldskrá leikskóla Akureyrarbæjar. Ef verið er að vitna til þess að foreldrar eru rukkaðir um aukagjöld er því til að svara að samkvæmt upplýsingum frá leikskólastjóra Hólmasólar er þar um að ræða gjald í foreldrafélag, gjald vegna aðgangs að myndasíðu og vegna kaupa foreldra á fatnaði á börn sín eða annars kostnaðar, svo sem kaupa á tilfallandi lengri vistun. Fram kemur í þessum upplýsingum að þessi kostnaður veltur á vilja og vali foreldra sjálfra. Af þessu má ljóst vera að foreldrar greiða sama gjald í Hólmasól eins og öðrum leikskólum bæjarins, nema þeir sjálfir ákveði annað.

Hvert pláss í Hólmasól er ekki dýrara fyrir Akureyrarbæ en í öðrum leikskólum sem Akureyrarbær rekur. Þetta kemur fram þegar rekstrarkostnaður leikskólanna á árinu 2007 er borinn saman og tekið tillit til mismunandi fjölda leikskólakennara í skólunum. Í fjárhagsáætlun ársins 2008 er gert ráð fyrir vísitöluhækkun í rekstrarkostnaði Hólmasólar og er kostnaður á hvert pláss ekki meiri fyrir Akureyrarbæ, að teknu tilliti til fjölda leikskólakennara.

Það er rétt að 20% af kostnaði við rekstur Hólmasólar er bundinn við neysluvísitölu. Þetta á ekki við aðra leikskóla þar sem ekki er í gildi sambærilegur rekstrarsamningur. Leikskólinn Hólmasól er rekinn fyrir samningsupphæðina á hverju ári og inni í þeim kostnaði er allur tilfallandi kostnaður s.s. vegna forfalla og afskrifaðra leikskólagjalda. Fjárhagsáætlanir leikskóla Akureyrarbæjar eru teknar til endurskoðunar á hverju ári og mikil frávik hjá leikskólum bæjarins þá metin og bætt í ef þannig stendur á. Einnig er það svo að ef rekstur leikskóla fer fram úr fjárhagsáætlun t.d. vegna mikils forfallakostnaðar, ber Akureyrarbær þann kostnað. Slík tilvik koma ekki upp í rekstri Hólmasólar. Það er því vandséð að sú fullyrðing standist að Akureyrarbær muni greiða hlutfallslega hærri upphæð á þessu ári en fyrir aðra leikskóla í bænum eins og Hlynur Hallsson heldur fram.

Hlynur segir fjölbreytt skólastarf mikilvægt en einungis skuli treysta opinberum aðilum fyrir því. Þessu er ég algerlega ósammála og er hlynnt þjónustusamningum við einstaklinga eða fyrirtæki eins og Hjallastefnuna ehf. sem hefur skilað góðum árangri í rekstri leikskóla. Auk þess sem það hefur sýnt sig að samkeppni örvar opinberan rekstur á sambærilegum sviðum sem leitt hefur til meiri fjölbreytni. Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf., er höfundur að hugmyndafræði Hjallastefnunnar og er skólanámskrá hennar líklegast ein sú athyglisverðasta og þekktasta á Norðurlöndunum sem dregur til sín fjölda erlendra gesta, nemendur og rannsakendur á hverju ári. Margrét Pála hefur af miklum krafti og eljusemi skapað nýja valmöguleika í skólastarfi sem eins og Hlynur bendir á opinberir leikskólar hafa nýtt sér.

Nýjast