Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrar fordæmir auglýsingu frá Agent.is um svokallaða Dirty night sem haldin var í Sjallanum 20. september sl. og birt var í Dagskránni miðvikudaginn 17. september og óskar eftir formlegum skýringum frá rekstraraðilum Sjallans og Agent.is á þessu áður en gripið verður til frekari aðgerða af hálfu ráðsins.
Málið var til umfjöllunar á fundi samfélags- og mannréttindaráðs í vikunni. Ráðið bendir öllum ofangreindum aðilum
á að í landinu eru í gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Í þeim er m.a. kveðið á um að
sá sem auglýsir, hannar eða birtir auglýsingu "skuli sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar,
lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jöfnum rétti kynjanna á nokkurn hátt."
Í Morgunblaðinu 25. september sl. er því haldið fram að í Sjallanum hafi umrætt kvöld farið fram sýning á klámefni en
slíkt brýtur í bága við almenn hegningarlög, segir í bókun ráðsins.