Fleiri hundruð konur tóku þátt í kvennafrídeginum á Akureyri

Fleiri hundruð konur tóku þátt í kvennafrídeginum á Akureyri í dag. Konur tóku höndum saman og hófu daginn á því að Ólöf Þórsdóttir frá Bakka í Öxnadal keyrði um bæinn á traktor sínum með gjallarhorn og hvatti konur til að leggja niður störf sín. Konurnar létu ekki segja sér það tvisvar, þær lögðu niður störf kl. 14.25 og fjölmenntu að styttunni af Þórunni hyrnu og manni hennar, Helga magra, á Hamarkotsklöppum.  

Þær gengu svo saman fylktu liði, ásamt nokkrum körlum, niður í Menningarhúsið Hof þar sem að dagskrá tók við. Þórunn Hyrna landnámskona ávarpaði konurnar við styttuna og var jafnframt gestgjafi í Hofi, ungar raddir sungu og Helena Eyjólfsdóttir söngkona tók lagið við undirleik Snorra Guðvarðssonar. Þá átti sér stað samtal milli þriggja kynslóða þar sem að Solveig Lára Guðmundsdóttir, Sigríður Hafstað og Gréta Kristín Ómarsdóttir, deildu upplifunum sínum af kvennabaráttunni fyrr og nú, og svo var fjöldasöngur leiddur af Ragnheiði Júlíusdóttur og Snorra.

Nýjast