Fjölmenni á vígslu nýbyggingar HA og opnu húsi

Nýtt húsnæði Háskólans á Akureyri var vígt við hátíðlega athöfn á Sólborg í gær. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff forsetafrú voru viðstödd en forsetinn flutti ávarp í tilefni dagsins. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra heiðraði einnig hátíðina og flutti ávarp.  

Í ávörpum dagsins kom m.a. fram ánægja með þau tækifæri sem opnast varðandi ráðstefnuhald og uppbyggingu frekari menntunar til handa þjóðinni allri með tilkomu nýbyggingarinnar við Háskólann á Akureyri. Nýbyggingin er búin öflugum tækjabúnaði sem bætir alla aðstöðu til náms og kennslu, staðarkennslu sem og fjarkennslu. Hátíðarsalur háskólans rúmar allt að 500 manns í sæti og nú hefur Háskólinn á Akureyri eignast anddyri með  aðstöðu til ýmissa uppákoma, þjónustu og samveru. Með bættri aðstöðu fer nú öll kennsla og rannsóknir við HA fram á Sólborgarsvæðinu við Norðurslóð og skapar þannig þekkingarsamfélag í hjarta Akureyrarbæjar.

Að lokinni vígsluathöfn var opið hús í nýja húsnæðinu. Á milli 700-800 manns heimsóttu Háskólann á Akureyri  í tilefni dagsins,  skemmtu sér og tóku þátt í hinni fjölbreyttu dagskrá sem var í boði. Gestum gafst kostur á að kynna sér nýbygginguna, námsframboð og starfsemi fræðasviða og rannsóknarstofnana við Háskólann á Akureyri og taka þátt í tilraunum og skemmta sér.  Fjölmargt var í boði og allir gestir óháð aldri fundu eitthvað við sitt hæfi. Meðal dagskrárliða var myndlistarsýning barna fædd 2004 með þemanu: Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór og mátti sjá þar afar skemmtilegar útfærslur og vangaveltur barna um framtíðina. Boðið var upp á blóðþrýstings- og blóðsykursmælingar og voru gestir duglegir við að nýta sér þann kost, efnafræðisýningin Galdraseyði í glösum gafst vel fyrir og var sérstaklega vinsæl,  glærusýningar þar sem m.a. rannsóknir og verkefni nemenda sem kennara voru kynnt var vel sótt.

Nýjast