LA hefur ráðið til sín bæði reynda leikstjóra, hönnuði og aðra listamenn að sýningum vetrarins, ásamt því að gefa ungu og efnilegu fólki tækifæri til að springa út og hefja blómlegan feril hjá leikfélaginu. Af ungum leikurum leikársins má nefna Önnu Svövu Knútsdóttur, Einar Örn Einarsson, Sindra Birgisson og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Viktor Már Bjarnason sem átti stórkostlegan leik í hlutverki hins "glaðlynda" Eiðs í Fló á skinni sl. vetur mun einnig leika hjá LA í vetur. LA á í góðri samvinnu við hin stóru leikhúsin og hefur Þjóðleikhúsið lánað leikfélaginu leikkonuna Lilju Guðrúnu Þorvaldsdóttur sem mun leika í tveimur af sýningum vetrarins.
Þráinn Karlsson mun verða áfram með LA í vetur, svo og Aðalsteinn Bergdal. Guðmundur Ólafsson, Ólafsfirðingurinn knái, sem hefur undanfarin ár leikið mörg eftirminnileg hlutverk hjá Borgarleikhúsinu mun koma á heimaslóðir í vetur og leika hjá LA. Einnig má nefna að hinar stórkostlegu gamanleikkonur Helgu Brögu, Eddu Björgvins og Sigrúnu Eddu sem mæta eins og hvítur stormsveipur í bæinn eftir áramótin í eitruðum gamanleik.
LA hefur valið ólík og mögnuð verk til frumsýningar í vetur. Músagildran eftir Drottningu glæpasagnanna Agöthu Christie, verður frumsýnd í október. LA er fyrst atvinnuleikhúsa á Íslandi til að setja upp Músagildruna. Íslenskun og leikgerð er í höndum Gísla Rúnars Jónssonar en leikstjóri er Þór Tulinius. Guðjón Þorsteinn Pálmarsson leikstýrir skemmtilegu aðventuleikriti fyrir alla fjölskylduna, Lápur, Skrápur og jólaskapið. Þarna er á ferðinni bráðfyndið verk með fallegum jólaboðskap, eftir Snæbjörn Ragnarsson, og semur hann einnig tónlistina. Í janúar frumsýnir LA nýtt íslenskt verk, Falið fylgi, eftir Bjarna Jónsson og er skrifað sérstaklega fyrir LA. Leikstjórn er í höndum Jóns Gunnars Þórðarsonar en Andrea Gylfadóttir mun semja tónlist við sýninguna.
Fúlar á móti, er nýtt fyndið frístandandi uppistand í íslenskri útfærslu Gísla Rúnars Jónssonar, þar sem þær Edda Björgvins, Helga Braga og Sigrún Edda fara á kostum sem "gallaðar, ellilegar kellingar á síðasta söludegi, enda eru þær Fúlar á móti."
Leikstjóri verður leikhússtjórinn María Sigurðardóttir, Ragnhildur Gísladóttir tónlistarkona mun sjá um tónlistina og Gunnar Sigurbjörnsson, tæknimaður LA, mun hanna hljóðmyndina og það gerir hann í fleiri verkum vetrarins.
Millf. Leiklist fyrir börnin
LA ætlar í vetur að reka sinn eigin leiklistarskóla fyrir börn. Þar verða eingöngu faglærðir kennarar á ferðinni og veita börnunum innsýn í hina ýmsu kima leik- og sönglistarinnar. Krónuleikhúsið verður á sínum stað, þar sem skyggnst er inn í íslenska klassík eftir karla og konur. Þá verður farið á flakk um bæinn í vetur og verið með skemmtilegar uppákomur á veitingahúsum bæjarins bæði sýnilegar og ósýnilegar. Þá hefur LA hefur valið mjög vandaðar, spennandi og fjölbreyttar gestasýningar sem koma til félagsins í vetur.