Tónleikar voru í Rýminu, húsnæði Leikfélags Akureyrar, Myrká er hljómsveit sem mun leggja land undir fót nú á næstunni og taka þátt í Tónlistarhátíð í New York. Hljómsveitin Völva var með útitónleika á miðnætti við gamla Íþróttahúsið við Laugargötu og myndaðist mikil stemmning þó svo að kalt væri í veðri. Á laugardag var margt á seyði, leikskólabörnin á Hólmasól fóru í siglingu á eikarbátnum Húna II annað árið í röð og hentu fyrir borð flöskuskeyti með friðarboðskap. Myndlistaopnanir voru á hverju horni bæði úti og inni og ætla má að um 80 myndlistamenn hafi sýnt verk á Akureyrarvöku í ár. Hljóðverk voru áberandi og voru sýnd verk á óvenjulegustu stöðum bæði í Brekkuskóla og við gamla íþróttahúsið í Laugargötu. Listasafnið var á sínum stað með enn eina glæsilega opnun á ljósmyndum Blaðaljósmyndarafélags Íslands og ljósmyndum eftir norska ljósmyndarann Ken Oppram. VeggVerk opnaði verk eftir Joris Rademaker verkið „Hús eða Hof" og graffarar tóku Göngugötuna yfir.
Segja má að stemmningin hafi náð hámarki þegar að fólk fór að safnast saman í Listagilinu um kvöldið, þar tók á móti fólki Brasssveitin sem var á víð á dreif á þökum og svölum. Upp úr kl. 21.00 fór hávær listflugvél að fljúga yfir Gilið við mikinn fögnuð áhorfenda. Á svið stigu Marimba hljómsveitin, Sjálfsprottin Spévísi, Bloodgroup, ógrynnin öll af módelum sem sýndu eyfirska hönnun, Sirkus Artika og Rocky Horror. Félagar í Mótorhjólaklúbbnum Tíunni og fleiri tóku svo lokasprettinn með miklum látum því í lokalaginu fóru þeir að þenja hjólin í kirkjutröppunum og einn kappinn keyrði niður tröppurnar.