Fjallabyggð kaupir slökkvibifreið frá Akureyri

Fjallabyggð hefur fest kaup á slökkvibifreið (tankbíl) Slökkviliðs Akureyrar og var farið með bílinn til Siglufjarðar á dögunum. Hann er hugsaður sem aukið viðbragð í tengslum við tilkomu Héðinsfjarðarganga, sem verða opnuð formlega í næsta mánuði.  

Umræddur slökkvibíll hefur þjónað slökkviliði Akureyrar í 26 ár en hann var keyptur nýr til liðsins 1984. Í ágúst sl. festi SA kaup á 3ja ára slökkvibifreið sem leysir þessa af hólmi. "Það var ekki síður skemmtilegt að geta ekið í gegnum Héðinsfjarðargöng með bílinn til Siglufjarðar og þvílík samgöngubót. Undirritaður hefur sjálfur aldrei stigið fæti sínum í Héðinsfjörð og því var tilvalið að stoppa þar og stíga út áður en haldið var inn í seinni hluta ganganna yfir til Siglufjarðar. Með tilkomu þessara ganga gerbreytist allt heildarflæði í Eyjafirði og er ljóst að slökkviliðin geta enn betur stutt við hvort annað í aðgerðum sínum," segir Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri á Akureyri í pistli á vefsíðu SA.

Nýjast