Fjölskylduhátíðin, Fiskidagurinn mikli 2008, verður haldinn hátíðleg í áttunda sinn laugardaginn 9. ágúst. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fá fólk til þess að koma saman, skemmta sér og borða fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis. Hátíðin er með svipuðu sniði og áður en alltaf er nýjum hugmyndum hrint í framkvæmd.
Föstudaginn 8. ágúst verður tekin skóflustunga af nýrri íþróttamiðstöð í Dalvíkurbyggð og munu Ólympíufarar Dalvíkurbyggðar gera það. Vináttukeðjan verður mynduð aftur líkt og síðasta ár með þátttöku íbúa og gesta. Meðal aðila sem fram koma á Vináttukeðjunni eru Kristjana Arngrímsdóttir, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Karlakór Dalvíkur og leikskólabörn í Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna flytur Jón Helgi Þórarinsson, 5.000 friðardúfublöðrum verður sleppt, mikið verður knúsast, knúskortinu dreift og í lokin mynda allir risaknús.
Fiskisúpukvöldið sem svo sannarlega hefur slegið í gegn er á sínum stað kl. 20:15 og þar opna íbúar heimili sín og bjóða gestum og gangandi að smakka fiskisúpu. Skemmtidagskráin hefur aldrei verið eins fjölbreytt og nú. Dagskrá verður á aðalhátíðarsviðinu allan daginn og til viðbótar verða á annan tug fjölskylduvænna atriða vítt og breitt um hátíðarsvæðið, heiðursgestur Fiskidagins mikla 2008, forsætisráðherrann Geir H Haarde, flytur ávarp, Fiskasýningin verður sú stærsta frá upphafi og að öllum líkindum sú stærsta í Evrópu með yfir 200 tegundir af ferskum fiski. „Margt býr í hafinu“ 800 mynda sýning verður sett upp í sérhönnuðu húsi byggðu úr plastkerjum frá Promens. Sýningin er samvinnuverkefni Fiskidagsins mikla og 1. bekkinga í grunnskólum landsins. Sýningarhúsið lítur út eins fisakbein séð úr lofti – rétt eins og fiskurinn hafi verið snæddur á Fiskideginum mikla. Á annað hundrað skemmtikraftar koma fram á sviðinu og að þessu sinni eru velflestir á einn eða annan hátt tengdir byggðalaginu.
Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð þar sem hvorki er pláss fyrir dóp né drykkjulæti og leggja aðstandendur mikla áherslu á að íbúar eða gestir hafi ekki áfengi um hönd á auglýstum dagskrárliðum Fiskidagsins mikla.