Fiskidagurinn 10 ára - glæsileg dagskrá

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í tíunda sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis. Hátíðin er með svipuðu sniði og áður en ýmsar afmælisnýjungar munu líta dagsins ljós í ár.

Það má segja að setning Fiskidagsins mikla sé með Vináttukeðjunni og hún verður á sínum stað fyrir neðan Dalvíkurkirkju kl. 18:00 föstudaginn 6. ágúst. Dagskráin er glæsileg að vanda. Meðal þeirra sem koma fram eru Aron og Stefán Þór, Matti Matt og Gyða Jóhannesdóttir, Íris Hauks ásamt hljómsveit, Karlakór Dalvíkur og leikskólabörn í Dalvíkurbyggð. Aron Óskarsson frumflytur lagið „Kvöldið fyrir fiskidaginn mikla“ en hann gaf Fiskideginum mikla lagið í tilefni af 10 ára afmælinu. Vinátturæðuna flytur séra Pálmi Matthíasson, 5.000 friðardúfublöðrum verður sleppt, knúskortinu dreift og verða nokkur þeirra merkt og hinir heppnu hljóta bókavinninga fá Sölku bókaforlagi sem á 10 ára afmæli um þessar mundir eins og Fiskidagurinn mikli. Í lokin verður risa afmælisknús sem enginn má missa af.
Fiskisúpukvöldið sem svo sannarlega hefur slegið í gegn er haldið í sjötta sinn í ár og samtals hafa ríflega 100.000 gestir ritað nöfn sín í gestabækur á súpukvöldi. Súpukvöldið hefst kl. 20:15 föstudaginn 6. ágúst og þar bjóða íbúar í allr Dalvíkurbyggð gestum og gangandi heim til smakka fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni.
Á sjálfum Fiskideginum mikla, laugardeginum 7. ágúst milli kl. 10:30 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Í tilefni af 10 ára afmælinu byrjum við kl. 10:30 með þyrlubjörgunarsýningu frá Landhelgisgæslunni í höfninni. Stundvíslega kl. 11:00 opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst. Matseðillinn er margrétta og meðal nýjunga er humarsúpa frá Grími kokki úr Eyjum, bláskel frá Norðurskel í Hrísey sem á 10 ára afmæli líkt og Fiskidagurinn mikli, Sushi í boði Friðriks V. og Humarhússins sem verður boðið uppá svölum ísbar. Tæplega fimm fermetra saltfiskpizzan sem að var í boði á hátiðinni 2008 verður aftur á boðstólum. Sama má segja um gráðostarækjuasalatið. Saltfiskpizzan er samvinnuverkefni, Greifans, Ektafisks og Promens. Stærstu súpupottur landsins er eflaust 1.200 lítra pottur sem  Bjarni í Nings, fjölskylda og vinir munu fylla af gómsætri fiskisúpu með austurlenskum blæ. Skemmtidagskráin er mjög fjölbreytt að vanda. Dagskrá verður á hátíðarsviðinu allan daginn og til viðbótar verður fjöldi fjölskylduvænna atriða vítt og breitt um hátíðarsvæðið. Í ár verður lag Fiskidagsins í fyrsta sinn flutt með hljómsveit. Fiskasýningin verður sú stærsta með yfir 200 tegundir af ferskum fiski, hákarlinn á sýningunni í ár er sá stærsti frá upphafi og er gjöf frá Grímseyingum. Hann verður skorinn kl. 15.00.  Ræðumaður dagsins er fulltrúi ungu kynslóðarinnar, Gyða Jóhannesdóttir 15 ára Dalvíkingur. Varðskipið Týr verður til sýnis við bryggjuna. Promens verður með uppákomu í kringum þau tímamót að daginn fyrir Fiskidaginn mikla framleiða þeir ker númer 500.000 og munu þeir að færa tveimur viðskiptavinum númeruð ker.

 

Aðrir viðburðir:
Meðal þess sem verður sérstaklega í boði í tilefni af 10 ára afmælinu er klassísk tónlistarhátíð í menningarhúsinu Bergi sem hefst strax í byrjun Fiskidagsvikunnar, Fiskidagshlaup um Svarfaðardalinn sjá á www.hlaup.is, Fiskidagsfjallganga á Karlsársetann, Fiskidagskappreiðar hestamannafélagsins Hrings, þyrlubjörgunarsýning Landhelgisgæslunnar. Á laugardagskvöldinu kl. 22:00 verður dagskrá í boði Samherja. Þar fáum við bryggjusöng, Deep Purple Tribute band og Karlakór Dalvíkur ásamt rokkhljósmveit með Bítla og Queen dagskrá. Endapunkturinn verður síðan risaflugeldasýning í boði tveggja brottfluttra heimamanna sem búa og starfa erlendis. Hvanndalsbræður hafa tekið þátt í Fiskideginum mikla í sex ár og alltaf jafn skemmtilegir og jákvæðir. Í ár verða þeir á aðalsviðinu að vanda og munu eflaust flytja lagið „Dragðu mig til Dalvíkur“, lag eftir Birgi Henningsson og texta eftir Guðna Má Henningsson sem að þeir færðu Fiskideginum mikla í tilefni af 10 ára afmælinu.

Það eru fleiri sem eiga tíu ára afmæli heldur en Fiskidagurinn mikli:
Fiskvinnsla Samherja á Dalvík er 10 ára. Samherji er er einn af gestgjöfum hátíðarinnar og afar mikilvægur styrktaraðili, af þessu tilefni verða Samherji og Fiskidagurinn mikli með sameiginlega kynningu og myndasýningu í Allahúsinu við Ránarbraut á Dalvík alla Fiskidagsvikuna.
Norðurskel í Hrísey er 10 ára og af því tilefni mæta fulltrúar Norðurskeljar með Bláskel á Fiskidaginn mikla.
Salka bókaforlag á 10 ára afmæli og af því tilefni verða dregnir út bókavinningar á Vináttukeðjunni.
Northcoast fyrirtæki Friðriks Más Þorsteinssonar sem er annar af tveimur styrktaraðilum flugeldasýningfarinnar er einnig 10 ára.
Að lokum má segja að samstarf Samhentra Umbúðamiðlunar og Fiskidagsins mikla sé 10 ára. Þeir voru fyrsta fyrirtækið utan Dalvíkurbyggðar til að taka þátt og trúa á hugmyndina. Allar götur síðan hafa þeir komið með sitt fólk og gefið íspinna á Fiskidaginn mikla í tugþúsundatali.

Fjölskylduganga fram að Kofa – Dísa í Dalakofanum:

Fjórða árið í röð efnum við til fjölskyldugöngu fram að kofa, Fiskidagsgöngunnar miklu. Fiskidagurinn mikli mun koma upp sérstakri gestabók í kofanum sem stendur í Böggvisstaðadal. Þeir sem skrifa í gestabókina lenda í potti og á aðalsviði Fiskidagsins mikla verða veglegir vinningar dregnir út. Kofinn stendur á tóftarbrotum smalakofa sem þar stóð til skamms tíma. Sagnir herma að þar hafi Davíð Stefánsson frá Fagraskógi ort kvæðið um Dísu í dalakofanum. Lagt verður upp frá Dalvíkurkirkju kl 19:00 miðvikudagskvöldið 4. ágúst. og munu Brynjólfur Sveinsson, Sveinn Brynjólfsson, Þorsteinn Skaftason og Vilhelm Hallgrímsson leiða hópinn. Gangan tekur rúmar þrjár klukkustundir, fram og til baka og er öllum fær.

Ljósmyndasamkeppni Fiskidagsins mikla 2010:
Fiskidagurinn mikli, Pedromyndir og Canon standa fyrir skemmtilegri ljósmyndasamkeppni sem allir geta tekið þátt í. Myndefnið verður að tengjast Fiskideginum mikla á einhvern hátt. Til að taka þátt skal velja hnappinn „ljósmyndasamkeppni“ á heimasíðu Fiskidagsins mikla: www.fiskisdagur.muna.is og fylgið leiðbeiningunum. Glæsileg verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin. Myndum er hægt að skila inn til mánudagsins 16. ágúst.  

Dalvíkurbyggð eins og stór listasýning:
Allir íbúar í Dalvíkurbyggð fá sendan heim útsagaðan fisk og staur til að festa fiskinn á. Hvert heimili skreytir sinn fisk eftir sínu höfði. Í tilefni af 10 ára afmælinu verður „Minningarsnúra“, þar sem íbúar hengja upp myndir frá s.l. árum og jafnvel munu vísur sem hafa að geyma Fiskidagsminningar prýða snúruna sem verður sett út við lóðamörk. Miðvikudaginn fyrir Fiskidaginn mikla, þ.e. í gær, var fiskurinn og snúran sett út að lóðarmörkum þar sem gestir og gangandi geta séð hann. Jón Arnar garðyrkjustjóri ásamt sínu fólku hjá Dalvíkurbyggð og vinnuskólanum skreyta bæinn og innkeyrslur í bæinn listilega vel. Að auki eru íbúarnir í Dalvíkurbyggð listamenn miklir og skreyta hús og garða á skemmtilegan máta. Það má segja að þeir sem að taki sér göngutúr um bæinn séu á stórri og eftirminnilegri listasýningu. 

Götunöfnin breytast:
Fiskidagsvikuna breytast götunöfnin á Dalvík og er þá fyrri hluta nafnanna er breytt í fiskanafn. Nú hafa fulltrúar gatnanna í bænum dregið sér ný nöfn. Sem dæmi um hvernig nöfnin breytast verður Mímisvegur verður Hákarlavegur og Sunnubraut verður Lúðubraut. 

Sýningar í tengslum við Fiskidaginn mikla:
· Ljósmyndasýning á Ráðhúslóðinni. Gamlar og nýjar myndir.
· „Ég fjörugum fiskum með færinu næ“, sýning Grétu Arngrímsdóttur í Bergi.
· Gestastofa Sútarans með sýningu í salnum sunnan við Klemmuna Hafnarbraut.
· Leikhópurinn Lotta sýnir Hans Klaufa í kirkjubrekkunni.
· Brúðubíllinn 30 ára með 3 sýningar á Fiskidaginn mikla á hafnarsvæðinu.
· Varðskipið Týr verður til sýnis við hafnargarðinn á Fiskidaginn mikla.
· Þyrlubjörgunarsýning Landhelgisgæslunnar.
· Stærsta fiskasýningu í Evrópu með yfir 200 tegundir af ferskum fiski.
· Risaflugeldasýning á hafnargarðinum að kvöldi Fiskidagsins mikla.
· Sýning Björgunarsveitarinnar og Slysavarnardeildar kvenna á munum sveitanna.
· Svo má segja að stærsta sýningin sé skrautsýning bæjarbúa á fiskskiltum og fleiru. 

Tónleikar í tengslum við Fiskidaginn mikla:

  • Klassísk tónlistarhátíð í Bergi.
    Blítt og létt tónleikar í Bergi með sjómanna, fiski og bátssöngvum.
  • Hvanndalsbræður í Víkurröst.
  • Deep Purple Tribute Band í Víkurröst.
  • South River Band í Bergi.
  • Ofnæmir og fleiri á planinu norðan við Húsasmiðjuna.
  • Á annað hundrað tónlistarmenn á aðalsviði Fiskidagsins mikla.
 Það er von aðstandenda Fiskidagsins mikla að allir skemmti sér vel, njóti matarins og þeirra atriða sem í boði eru. Sérstaklega vonumst við til þess að allir eigi góðar og ljúfar stundir með fjölskyldunni og vinum. Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð þar sem hvorki er pláss fyrir dóp né drykkjulæti og leggja aðstandendur mikla áherslu á að íbúar eða gestir hafi ekki áfengi um hönd á auglýstum dagskrárliðum Fiskidagsins mikla. Frá upphafi höfum við haft frábæra gesti sem hafa gengið einstaklega vel um og fyrir það viljum við þakka sérstaklega. 

Matseðilinn, dagskrá, aðrar almennar upplýsingar og fréttir má skoða á heimasíðu dagsins www.fiskidagur.muna.is

Nýjast