Fimm sveitarfélög sameinast um þjónustu við fatlaða

Drög að samningi um sameiginlegt þjónustusvæði í Eyjafirði um þjónustu við fatlaða milli sveitarstjórna Akureyrarbæjar, Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar og Svalbarðsstrandahrepps hafa verið kynnt í bæjarráði Akureyrar og samþykkt þar. Samningurinn tekur gildi 1. janúar á á næsta ári og gildir til gildir til 31. desember 2014.  

Oddur Helgi Halldórsson formaður bæjarráðs segir að sveitarfélög taki við þjónustu ríkisins við fatlaða í upphafi næsta árs og að samkomulag hafi verið gert um tilfærslu þjónustunnar milli aðila. Hvað Akureyri varðar er um formsatriði að ræða því bærinn hafi með samningi við ríkið séð um málefni fatlaðra um árabil.  Nú sé verið að útvíkka samninginn og nágrannasveitarfélög í Eyjafirði gerast aðilar að honum. „Það eru allir aðilar sammála um að takast á við þetta verkefni af metnaði og fagmennsku, þessi fimm sveitarfélög í Eyjafirði munu nú sameinast um þjónustu við fatlaða með samstöðu og samábyrgð að leiðarljósi," segir Oddur Helgi.

Hann segir að málefni fatlaðra hafi lengi verið á könnu Akureyrarbæjar og þannig sé málið í raun í sama farvegi og áður hvað bæinn varðar, en við bætast fjögur nágrannasveitarfélög í Eyjafirði.  Framkvæmd samningsins er í höndum Akureyrarbæjar, en aðildarsveitarfélögin öll mynda sérstakt þjónusturáð sem er vettvangur samhæfingar og samráðs vegna þjónustu innan svæðisins.

Nýjast