Fimm metra há varða hlaðin á brún Hlíðarfjalls

Laugardaginn 11. september sl. lagði 12 manna hópur síðustu hönd á hleðslu fimm metra hárrar vörðu á brún Hlíðarfjalls við Akureyri. Margir hafa komið að því verki sem hófst á síðasta ári með söfnun steina sem síðan hefur verið hlaðið upp undir styrkri stjórn Tómasar Júlíussonar hleðslumeistara. Nærri lætur að þyngd steinanna í vörðunni sé um 70 tonn og féll margur svitadropinn áður en yfir lauk.  

Varða þessi hlaut nafnið HARÐARVARÐA. Það er í höfuðið á Herði Sverrissyni sem hefur verið tengdur Hlíðarfjalli og starfinu þar í 60 ár sem skíðamaður,  skíðakennari og lyftuvörður. Hann hefur lengi mælt fyrir nauðsyn þess að hlaða myndarlega vörðu á brún Hlíðarfjalls til að draga fleiri þangað upp í gönguferðir og útivist í þá paradís sem þar er að finna. Nú er  draumur Harðar orðinn að veruleika og því fannst hleðslufólki við hæfi að kenna vörðuna við hann.  Í vörðunni er bók sem göngufólk getur skrifað nafn sitt í.

Alls komu 25 manns að verkinu og allt í sjálfboðavinnu í nafni hugsjónarinnar um holla og góða útivist. Hægt er að sjá fleiri myndir frá hleðslunni á vefsíðunni: http://www.24x24.is/.

Nýjast