Fífurnar sigruðu á Akureyrarmótinu í krullu

Akureyrarmótinu í krullu, því sjöunda í röðinni, lauk í gærkvöld. Sex lið tóku þátt í mótinu, öll úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar. Fífurnar unnu mótið með fullu húsi, lögðu Riddara í lokaumferðinni. Um tíma leit út fyrir að Riddarar ætluðu að ná sigri, þeir komust í 5-2 en Fífurnar náðu að skora fjögur stig í lokaumferðinni og tryggja sér sigur, 6-5, og þar með Akureyrarmeistaratitilinn í krullu 2010.  

Við tapið féllu Riddarar niður í þriðja sætið en Víkingar skutust upp fyrir þá með sigri á Mammútum í lokaumferðinni. Fálkar, Garpar og Mammútar voru jafnir í neðri hlutanum, hvert lið með einn vinning.

Úrslit leikja í lokaumferðinni:

Mammútar - Víkingar  3-6

Fífurnar - Riddarar  6-5

Garpar - Fálkar  9-1

Endanleg röð:

1. Fífurnar 5 vinningar

2. Víkingar 4 vinningar

3. Riddarar 3 vinningar

4. Mammútar 1 vinningur

5. Fálkar 1 vinningur

6. Garpar 1 vinningur

Þetta mun vera í fyrsta krullumótið sem Fífurnar vinna. Til gamans má geta þess að krullumót á Akureyri eru yfirleitt opin þannig að í liðunum geta verið hvort heldur er bara karlar, bara konur eða blanda beggja kynja. Svo skemmtilega vill til í þessu móti að þau lið sem höfðu konur innan sinna raða enduðu í tveimur efstu sætunum. Fyrirliði Fífanna er Svanfríður Sigurðardóttir en ásamt henni í liðinu nú voru þau Jón Grétar Rögnvaldsson, eiginmaður Svanfríðar, Dagbjört Hulda Eiríksdóttir og Jónas Gústafsson.

Önnur tölfræðilega merkileg staðreynd sem nefna má um þetta mót er að Sigurgeir Haraldsson vann bronsverðlaun með Riddurum og hefur hann þar með unnið til verðlauna í hvert einasta skipti sem Akureyrarmótið hefur verið haldið, alls sjö sinnum, eitt gull, tvö silfur og fjögur brons.

Nýjast