Færri almennar gistinætur á tjaldsvæðum Akureyrar

Almennum gistinóttum á tjaldsvæðum Akureyrarbæjar í Þórunnarstræti og að Hömrum fækkaði um þrjú þúsund á milli ára, voru í ár 30.000 talsins en sumarið 2007 voru þær 33.000. Ef teknar eru með tölur frá Landsmóti skáta í sumar eru gistinæturnar mun fleiri en þær voru í fyrra en um 12.000 gistinætur voru á Landsmótinu einu saman.  

 „Samdrátturinn kemur að mestu leyti fram í júní sem var frekar lélegur. Það helgast aðallega af veðri og svo líka af því að svokölluð Polla- og N1-mótshelgi var heldur minni en undanfarin ár. Sennilega er samdrætti í þjóðfélaginu almennt mest um að kenna," segir Tryggvi Marínósson framkvæmdastjóri tjaldsvæðanna.

Raunar voru gistinæturnar á tjaldsvæðunum alls samt sem áður mun fleiri en áðurgreindar tölur gefa til kynna, því að inn í þeim er ekki Landsmót skáta sem haldið var að Hömrum í júlí. „Ef við tökum Landsmót skáta með inn í tölurnar eru gistinæturnar mun fleiri en þær voru í fyrra. Það voru um 12.000 gistinætur á Landsmótinu einu saman en það er eiginlega ekki hægt að blanda þeim tölum saman við hefðbundið ferðasumar. Þetta hefur eflaust haft einhver áhrif á almennu ferðamennina en fyrst að fækkunin kom ekki fram í júlí hvað varðar almennar gistinætur, þá hefur maður ekki trú á því að þau áhrif hafi verið mikil," sagði Tryggvi um þessar tölur.

 Hann sagði svo að lokum: „Heldur fleiri gistu á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti en í fyrra og það helgast örugglega fyrst og fremst af því að fleiri sóttu þangað þann tíma sem Landsmótið var að Hömrum."

Nýjast