Sá niðurskurður á fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga sem kynntur hefur verið í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er ein mesta ógn sem steðjað hefur að búsetu á þessu svæði um langa hríð og mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir alla íbúa í Þingeyjarsýslum, allt frá Ljósavatnsskarði í vestri til Þórshafnar í austri. Krafa um tæplega 40% niðurskurð þýðir stórauknar álögur á almenning á starfssvæði stofnunarinnar, atvinnumissi fólk í tuga tali og mun draga stórkostlega úr möguleikum sveitarfélaganna til uppbyggingar á komandi árum. Jafnframt lýsir aðalfundur Eyþings yfir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum niðurskurði til heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar. Ljóst er að Sjúkrahúsið á Akureyri er illa í stakk búið til að taka við öllum þeim aukna fjölda sjúklinga sem þangað mun koma verði af þessum áformum um niðurskurð. Aðalfundur Eyþings skorar á heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og aðra alþingismenn að falla frá þessari tillögu og leggjast á eitt um að tryggja fjármuni til heilbrigðisþjónustu á Norðausturlandi, segir ennfremur í ályktuninni.