Það er hreint með ólíkindum hvað golfarar á Jaðarsvelli á Akureyri eru hnitmiðaðir þessa dagana og fer það að verða daglegur viðburður að menn fari holu í höggi á vellinum. Ingi Hrannar Heimisson frá GA er fimmti maðurinn á stuttum tíma sem nær þeim áfanga en draumahögginu náði hann í gær á 4. holu með sjö járni. Björgvin Þorsteinsson, margfaldur Íslandsmeistari í golfi, virðist hafa opnað fyrir flóðgáttir á vellinum á dögunum með holu í höggi í tvígang í þar síðustu viku, sem ekki sér fyrir endann á.