Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi nýverið og samþykkti að veita framlengja framkvæmdafrest til 1. júlí 2009. "Ástæðan fyrir því að við óskum eftir fresti er fyrst og fremst sú að okkur skilst að til sé yfirdrifið nóg af óseldum íbúðum, bæði í Naustahverfi og víðar um bæinn. Lánsfjármagn er afar dýrt um þessar mundir og það liggur heldur ekki á lausu," segir Páll. "Við þær aðstæður er ekkert vit í að hefja byggingu íbúða til sölu á frjálsum markaði, enda nóg til af þeim."
Skipulag umrædds reits við Sómatún er tilbúið og hægt að hefjast handa með skömmum fyrirvara. "Við munum fara af stað með framkvæmdir um leið og rofar til, öll él styttir upp um síðir," segir Páll. Útboð á vegum Akureyrarbæjar á stórum verkefnum segir hann hafa bjargað miklu fyrir byggingastarfsemi í bænum, nefnir hann sem dæmi byggingu Naustaskóla, íþróttahúss við Giljaskóla og stúkubyggingu á Þórssvæðinu sem dæmi. P.A. Byggingaverktakar eru með verkið við íþróttahúsið og því á að skila í júní á næsta ári. "Við munum einbeita okkur að því verkefni næstu mánuði," segir Páll.