Engar frystikistur til hjá Byko og Húsasmiðjunni á Akureyri

"Það eru bara engar frystikistur til," segir Sigurður S. Sigurðsson verslunarstjóri hjá Húsasmiðjunni á Akureyri og sama er uppi á teningnum hjá Byko.  Á báðum stöðum kláruðust birgðir mun fyrr en áætlað var og bíða menn nýrra sendinga.  

Sigurður í Húsasmiðjunni segir að nú í haust hafi sala á frystikistum verði einkar lífleg, þar hafi ársbirgðir selst á einum og hálfum mánuði.  "Við höfum aldrei séð annað eins, nú eru ekki til neinar frystikistur hjá okkur, en við eigum von á sendingu síðar í þessum mánuði," segir hann.  Hann telur að í kjölfar kreppunnar sem skall yfir Íslendinga í liðnum mánuði hafi fólk orðið hagsýnna, tekið slátur í meira mæli en áður og keypt kjöt og því þurfi menn frystikistur til að geyma matvælin.

Sigmundur Sigurðsson verslunarstjóri hjá Byko á Akureyri segir að lager af frystikistum sem átti að endast út árið sé uppurinn.  "Það fengu færri en vildu," segir hann um frystikistukaup Akureyringa og nærsveitarmanna.  Hann segir iðulega mikla sölu á frystikistum á haustin þegar fólk fer að búa í haginn fyrir komandi vetur, en slagurinn um kisturnar nú hafi verið engu líkur. "Við gerðum ákveðna áætlun um sölu fyrir árið, en það var allt búið töluvert fyrr en við gerðum ráð fyrir," segir hann.  "Ég held að fólk sé bara skynsamara núna eftir að kreppan skall á," segir hann .

Nýjast