20. október, 2008 - 12:34
Vetur konungur minnti hressilega á sig um helgina en þá fór að snjóa á Akureyri og víðar á Norðurlandi með tilheyrandi
hálku á vegum. Líkt og venjulega taka ökumenn við sér í kjölfarið, flykkjast á dekkjaverkstæði bæjarins og þar er
handagangur í öskjunni.
Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar, er éljagangur og jafnvel skafrenningur víða á Norðurlandi, hálkublettir vestan til en hálka
eða snjóþekja eftir því sem austar dregur. Þæfingsfærð er á Lágheiði og Öxarfjarðarheiði er orðin
ófær. Á Austurlandi er víða einhver hálka eða snjóþekja. Skafrenningur er á Fjarðarheiði og Öxi en
þæfingsfærð á Hellisheiði eystri.
Vegir eru víðast auðir á Suður- og Vesturlandi. Þó eru hálkublettir á Hellisheiði, hálka á Nesjavallaleið, og
hálkublettir á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Á Vestfjörðum er þæfingur á Þorskafjarðarheiði og Hrafnseyrarheiði
en annars staðar eru víða ýmist hálkublettir eða snjóþekja. Raunar er þungfært norður í Árneshrepp.